„Það skýrist á næstu dögum hvort við fáum einhverju áorkað í þessum málum,“ segir Margrét Tryggvadóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, og svarar þannig spurningunni hvenær tíðinda sé að vænta í skuldamálum heimilanna.
Eins og komið hefur fram setja þingmenn Hreyfingarinnar það skilyrði fyrir stuðningi við ríkisstjórnina að tekið verði á skuldavanda heimilanna.
Þá má rifja upp þau orð Helga Hjörvar, þingmanns Samfylkingar og formanns efnahags- og viðskiptanefndar, í Morgunblaðinu 25. apríl sl. að „lokasvars“ í skuldamálunum væri að vænta áður en maímánuður væri úti.
Helgi boðaði þá að hann vildi ná sátt með aðgerðunum.
„Ég tel að stjórnvöld þurfi að vera með lokasvar í þessum skuldamálum á vorþinginu. Það er mikilvægt að fá einhverja niðurstöðu í þeim málum sem bærilega víðtæk sátt geti tekist um svo menn geti lagt þessi mál að baki og farið að horfa fram á við eins og er mikilvægt á mörgum öðrum sviðum,“ sagði Helgi en vorþinginu lýkur að óbreyttu 31. maí nk.
Samfylkingarmenn boðuðu aðgerðir
Flokksbróðir hans, Lúðvík Geirsson, tók í sama streng. „Það er ljóst að skuldamálin eru eitt af þeim málum sem þarf að ljúka í lok þessa þings í sumar. Þetta eru verkefni sem þarf að ljúka á næstu vikum og við munum gera það,“ sagði Lúðvík í sömu grein í Morgunblaðinu 25. apríl sl. og átti við skuldamálin og stjórnarskrármálið.
Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður Samfylkingar, var sama sinnis og kvaðst sjálfur fylgjandi því að leitað yrði „allra leiða til að ganga lengra með almennari aðgerðum, sérstaklega gagnvart þeim sem keyptu á þenslutímabilinu“.