Mikill meirihluti þjóðarinnar telur að það ætti að vera hámark á því hversu mörg kjörtímabil forseti Íslands megi sitja. Rúm 70 prósent landsmanna eru á móti því að embætti forseta Íslands verði lagt niður. Þetta kom fram í sjónvarpsfréttum RÚV.
Fram kom að Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands hefði nýverið kannað afstöðu fólks til forsetaembættisins og hafði stofnunin sjálf frumkvæði að gerð könnunarinnar.
Spurt var: Kjörtímabil forseta Íslands er fjögur ár. Ert þú á þeirri skoðun að það ætti að vera hámark á því hversu mörg kjörtímabil einn forseti má sitja?
Af þeim sem svöruðu sögðust 64% vera á því að það ættu að vera mörk á því hversu lengi forseti megi sitja, en 36% sögðust telja að engin mörk ættu að vera á því.
Könnunin var gerð dagana 17. apríl til 7. maí, rúmlega 4.000 manns voru í úrtaki og svarhlutfall var 63%.