Færir Bjarta framtíð nær stjórninni

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins. Eggert Jóhannesson

„Þetta hefur minna með raunverulega efnahagsstefnu að gera en pólitíska sýndarmennsku,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknar, sem telur aðkomu Bjartrar framtíðar að nýrri fjárfestingaáætlun ríkisstjórnarinnar til marks um að nýi flokkurinn sé að færast nær ríkisstjórninni, líkt og Hreyfingin hafi gert að undanförnu.

„Áætlunin snýst einkum um tvennt, eins og kemur raunar fram í inngangi hennar. Henni er annars vegar ætlað að draga Bjarta framtíð að ríkisstjórninni og skuldbinda hana til að starfa með ríkisstjórninni áfram. Það bætist við þá vinnu sem ríkisstjórnin hefur lagt á sig til að halda Hreyfingunni með sér til að keyra stjórnarskrármálið í gegnum þingið.

Hins vegar snýr þetta að sjávarútvegsmálunum og því að lofa hinum og þessum fjármagni ef að sjávarútvegsfrumvörpin ná í gegn. Fyrir utan að vera ósvífið kemur þetta á óvart í ljósi þess að ég taldi að ríkisstjórnin væri búin að fallast á að veiðigjaldið sem gert er ráð fyrir væri of hátt. Þarna er gert ráð fyrir því að taka allt þetta fjármagn út úr sjávarútvegnum og útdeila því í tíð næstu ríkisstjórnar.

Það er sem sagt verið að segja hvaða útgjöld menn sjái fyrir sér að næsta ríkisstjórn leggi í. Í raun hefur ríkisstjórn ekki vald til að taka fjárveitingavald af Alþingi, hvaða þá næsta Alþingi. Fyrir vikið held ég að þetta snúist ekki um eitthvað sem menn gera raunverulega ráð fyrir að verði að veruleika heldur miklu frekar að þetta sé pólitískt leikatriði. Þá horfi ég til þessara tveggja hluta, annars vegar umræðuna um sjávarútvegsmálin og hins vegar þörfina fyrir að styrkja ríkisstjórnina með aðkomu litlu flokkanna.“

Hlynntur því að efla þróunarstarf

- Stundum er sagt að sama sé hvaðan gott kemur. Sérðu ekkert jákvætt við tillögurnar?

„Ég er enn eindregið þeirrar skoðunar að það sé sama hvaðan gott kemur. Þessir útgjaldaliðir eru margir hverjir liðir sem ég er sammála um að þurfi að leggja meira fjármagn í. Ég er til dæmis eindregið þeirrar skoðunar að það þurfi að leggja aukið fjármagn í rannsóknar- og þróunarstarf, í menntamál, tæknigreinar og annað slíkt.

Það ætti að vera ágæt samstaða um það í þinginu. Þarna er hins vegar miðað við að fjármagn sem verður tekið út úr sjávarútveginum, og getur stórskaðað þá grein, í stað þess að gera ráð fyrir því að aukin fjárfesting og tekjurnar af nýrri verðmætasköpun séu notaðar til að standa straum af þessum útgjöldum. Greining fjármálafyrirtækisins Gamma á áhrifum rammáætlunar sýnir að ef farið hefði verið í nokkra hagkvæma virkjanakosti hefði það skapað ný verðmæti og þúsundir starfa og það hefði gert okkur kleift að fjármagna þessi góðu mál.“

Ekki hlaupið að eignasölu

- Hversu raunhæft er að selja hluti ríkisins í bönkunum á þessum tímapunkti? Er þetta góður eða slæmur tími til þess?

„Bankar um allan heim eiga í verulegum erfiðleikum þessa dagana þ.a. það er ekki víst að það verði hlaupið að því að selja hlut í íslenskum bönkum á háu verði á næstunni. Auk þess þarf að hafa í huga að það fjármagn sem ríkið setti inn í bankana var lánsfé. Ríkið mun þurfa að endurgreiða þau lán og getur ekki notað sama fjármagn í annað.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert