Farþegar aftur í loftið innan skamms

Farþegarnir í flugvél Icelandair sem lent var með brotið hjól á Keflavíkurflugvelli um níuleytið eru nú á leið um borð í aðra vél sem mun taka þá á áfangastað í Orlando. Vélin ætti að fara í loftið innan tíðar.

191 maður var um borð í vélinni sem snúið var til baka eftir að uppgötvaðist að hluti af afturhjólum hennar hafði brotnað af í flugtaki. Eftir að hafa hringsólað í rúman klukkutíma úti fyrir Reykjanesi til að brenna eldsneyti og lágmarka þannig áhættu lenti vélin nokkuð mjúklega við Leifsstöð.

Farþegar héldu ró sinni og var haldið vel upplýstum af flugmanni og áhöfn samkvæmt upplýsingum Mbl.is. Eftir lendingu var þeim sem þess óskuðu boðinn sálrænn stuðningur í Rauða krossinum. Þeir stöldruðu þó ekki lengi við því önnur flugvél Icelandair var til taks og ákveðið að halda ferðinni áfram hið fyrsta. Samkvæmt flugáætlun á vélin að fara í loftið kl. 23:30.

Samkvæmt vefnum Alltumflug.is hafa fréttir af atvikinu ratað á flugfréttavefi erlendis þar sem margir hrósa flugmönnum vélarinnar fyrir mjúka lendingu og áhöfn um borð fyrir fagmannleg störf.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert