Flugvél Icelandair sem snúa þurfti við til öryggislendingar lenti heilu og höldnu á Keflavíkurflugvelli nú kl. 21:17.
Mikill viðbúnaður var vegna öryggislendingarinnar en 191 var um borð í vélinni sem er af Boeing-gerð. Eitt af fjórum dekkjum úr aftara hjólastelli vantaði en það kom í ljós eftir að vélin fór í loftið.
Samkvæmt flugslysaáætlun Keflavíkurflugvallar tekur áfallahjálparteymi við farþegum flugvéla eftir öryggislendingar. Aðstandendum farþega stendur áfallahjálp einnig til boða, samkvæmt upplýsingum frá almannavörnum.
Almannavarnir lýstu yfir hættustigi og var samhæfingarmiðstöðin í Skógarhlíð virkjuð vegna atviksins. Hættustig er annað af þremur háskastigum í neyðarskipulagi Almannavarna, en þriðja stigið er neyðarstig.
Í þessu tilfelli felst það m.a. í að allt tiltækt lögreglu-, sjúkra- og slökkvilið hefur verið kallað til auk björgunarsveita og Landhelgisgæslu.