Karlmaður á fimmtugsaldri lést í fangaklefa sínum á Litla-Hrauni í gærkvöldi. Ekki er talið að andlátið hafi borið að með grunsamlegum hætti. Maðurinn hafði verið í fangelsinu í einn sólarhring.
„Þetta var ósköp eðlilegt andlát,“ sagði Þorgrímur Óli Sigurðsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Selfossi, í samtali við mbl.is.
„Það var kallað eftir aðstoð sjúkraflutningabíls og læknis um áttaleytið í gærkvöldi, þeir fóru á staðinn og þá var maðurinn látinn í klefa sínum. Hafnar voru lífgunartilraunir, sem því miður báru ekki árangur.“
Að sögn Þorgríms Óla liggur dánarorsök ekki fyrir, en maðurinn verður krufinn eins og venja er þegar andlát ber brátt að.
Páll Winkel fangelsismálastjóri segist ekki geta tjáð sig um einstök mál fanga. En hann sagði manninn hafa verið í haldi í einn sólarhring þegar hann lést og að enginn grunur væri um saknæmt athæfi.