Ný stefna ríkisstjórnarinnar í fjárfestingum og atvinnumálum verður einkum fjármögnuð með fyrirhuguðum auknum veiðigjöldum á sjávarútvegsfyrirtæki. Þetta kom fram á kynningarfundi á stefnunni í Iðnó.
Forystumenn ríkistjórnarinnar kynna á blaðamannafundi sem nú stendur yfir í Iðnó nýja fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar sem unnin hefur verið meðal annars í samstarfi við Guðmund Steingrímsson, alþingismann.
Fram kom í máli Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, að um væri að ræða nýja áherslu í atvinnumálum sem væri fráhvarf frá einhæfum áherslum Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins í þeim efnum sem hefði einkum byggst á stóriðjustefnu.
Jóhanna sagði að áherslan yrði þess í stað meðal annars á nýsköpun, græna hagkerfið, ferðaþjónustu og að styrkja innviði samfélagsins.
Þá væri markmiðið að þessi nýja stefna yrði einkum fjármögnuð með fyrirhuguðum auknum veiðigjöldum á sjávarútvegsfyrirtæki og endurheimt fjármuna sem settir hefðu verið í bankakerfið, sölu eigna ríkisins í bönkunum og aðgreiðslna.
Gert er ráð fyrir 39 milljarðar króna verði fjármagnaðir með fjárfestingaáætluninni og þar af komi 17 milljarðar af sérstöku veiðigjaldi og leigu aflahlutdeilda og 22 milljarðar af arði og eignasölu.
Dagur B. Eggertsson, varformaður Samfylkingarinnar sem haldið hefur utan um mótun stefnunnar ásamt varaformanni Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, sagði að með stefnunni væri verið að snúa vörn í sókn í atvinnumálum þjóðarinnar.
Síðar í dag verður stefnan kynnt aðilum vinnumarkaðarins á fundi og í framhaldi af því stjórnarandstöðunni.