Ósamkomulag innan meirihlutans

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokks í Árborg og Elfa Dögg Þórðardóttir …
Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokks í Árborg og Elfa Dögg Þórðardóttir fagna úrslitum sveitarstjórnarkosninganna. mbl.is/Egill

Helgi Haraldsson, bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins í Árborg, segir óljóst hvers konar meirihluti verði myndaður í Árborg ef meirihluti sjálfstæðismanna í sveitarfélaginu fellur.

Sjálfstæðismenn fengu fimm menn kjörna í bæjarstjórn Árborgar í síðustu kosningum og hreinan meirihluta. Samfylkingin er með tvo menn, framsóknarmenn einn og VG einn.

Elfa Dögg Þórðardóttir, 2. maður á lista Sjálfstæðisflokksins í Árborg, fundaði í gær með fulltrúum minnihlutans þar sem m.a. var rætt um framtíð meirihlutans.

Helgi Haraldsson segir að það hafi legið fyrir að ósamstaða sé innan meirihlutans og það hafi verið eðlileg viðbrögð hjá fulltrúum minnihlutans að óska eftir upplýsingum frá Elfu Dögg um hvað sé í gangi.

Helgi segir að á fundinum í gær hafi ekki verið rætt um myndun nýs meirihluta enda lægi ekkert fyrir um að meirihlutinn væri fallinn. „Við bíðum bara á hliðarkantinum til að sjá hvernig þau klára sín mál.“

Helgi segir ekki sjálfgefið að minnihlutaflokkarnir og Elfa Dögg fari í samstarf ef meirihlutinn springur. „Það eru fjórir möguleikar í stöðunni á myndun nýs meirihluta. Þá fer væntanlega af stað skoðun á því hvort við náum saman um málefni og annað. Þarna eru ólíkar skoðanir. Eins er spurning hvað sjálfstæðismenn gera og hvort þeir vilja ræða við einhverja um myndun nýs meirihluta, þ.e.a.s. ef þetta endar svona.“

Helgi segir mikilvægt að það skýrist sem fyrst hvort þessi meirihluti heldur áfram störfum. Hann segist reikna með að það verði ljóst í síðasta lagi um helgina.

Ekki hefur náðst í Elfu Dögg þrátt fyrir ítrekar tilraunir.

Í frétt á Bylgjunni í hádeginu var sagt að meirihlutinn væri að falla vegna ágreinings um hugmyndir um að Árborg segði sig úr Skólaskrifstofu Suðurlands.

Engin ákvörðun hefur verið tekin um að sveitarfélagið hætti í þessu samstarfi. Á síðasta fundi bæjarstjórnar var því frestað að taka ákvörðun um skipulagsbreytingar á fræðslusviði með tilheyrandi úrsögn úr Skólaskrifstofu Suðurlands. Samþykkt var samhljóða að skipa vinnuhóp með fulltrúum frá fræðslusviði, fulltrúum frá leik- og grunnskólum ásamt óháðum aðilum sem skoði hvernig sveitarfélagið geti gert góða sérfræðiþjónustu betri til hagsbóta fyrir notendur þjónustunnar. Í framhaldi af því verði lagt mat á ákvörðun um úrsögn úr samstarfi um skólaskrifstofu eður ei.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert