Óvíst um opnun hálendisleiða

Víða á hálendinu er allur akstur bannaður vegna aurbleytu og hættu á skemmdum að sögn Vegagerðarinnar. Páll Halldórsson, rekstrarstjóri Vegagerðarinnar á Selfossi, segir að sökum tíðarfarsins séu menn frekar svartsýnir á að geta opnað allar hálendisleiðir í kringum 9. júní, líkt og verið hefur undanfarin ár.

Páll segir í samtali við mbl.is að það hafi verið mjög kalt á hálendinu og víða hafi snjóað mjög mikið, t.d. við Kerlingarfjöll.

Hann bendir á að hálendisleiðirnar séu vanalega opnaðar í kringum 9. júní ár hvert. „Við erum hræddir um að það hafist ekki,“ segir Páll og bætir við að erfitt sé að segja nokkuð til um það hvenær vegirnir verði orðnir færir. Það fari alveg eftir tíðarfarinu.

„Við erum allir af vilja gerðir að opna þetta sem fyrst,“ segir Páll. Aðspurður segir hann að ferðaþjónustuaðilar hafi reglulega samband við Vegagerðina til að kanna stöðu mála á hálendinu. Það sé svolítill þrýstingur á að vegirnir verði opnaðir sem fyrst fyrir ferðamenn, en eins og staðan sé núna þá sé mjög tæpt að það takist í kringum 9. júní.

Ekki eru allar leiðir þó ófærar. Páll bendir á að frá Kjalvegi sé nú fært upp að Bláfellshálsi og í Skálpanes. Eins sé Haukadalsheiðin orðin fær yfir á Skjaldbreiðarveg. Þá segist hann hafa heyrt af því að búið sé að opna hluta leiða yfir í Jökulheima.

Upplýsingar um ástand á hálendisleiðum á vef Vegagerðarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert