Rekstur Vinjar tryggður

Velferðarráðuneytið, Reykjavíkurborg, Vinafélag Vinjar og Rauði kross Íslands hafa undirritað …
Velferðarráðuneytið, Reykjavíkurborg, Vinafélag Vinjar og Rauði kross Íslands hafa undirritað samkomulag sem tryggir rekstur athvarfsins, sem er við Hverfisgötu í Reykjavík. mbl.is/Kristinn

Búið er að tryggja rekstur Vinjar við Hverfisgötu, sem er athvarf fyrir fólk með geðraskanir, næstu þrjú árin, eða út árið 2014. Samkomulag þess efnis var undirritað í Vin í dag. „Mér finnst þetta alveg frábært,“ segir Þórdís Rúnarsdóttir, forstöðumaður Vinjar, í samtali við mbl.is.

„Þetta er ómetanleg þjónusta og ég held að það sé öllum ljóst að hún verður að vera fyrir hendi,“ segir hún.

Hátt í 30 manns heimsækja Vin daglega og á síðasta ári jukust gestakomur frá árinu 2010. Þórdís bendir á að Vin sé ekki meðferðarstaður heldur sé tilgangur starfseminnar fyrst og fremst að rjúfa félagslega einangrun geðfatlaðra.

Geðfatlaðir geti nýtt sér almennar félagsmiðstöðvar

Rauði kross Íslands hefur séð um reksturinn á undanförnum árum en sl. haust tilkynnti hann að til stæði að loka athvarfinu vegna sparnaðaraðgerða.

„Eftir að baráttan fór í gang í haust sameinuðust þessir fjórir aðilar; velferðarráðuneytið, Reykjavíkurborg, Vinafélag Vinjar og Rauði krossinn, um að reka Vin næstu þrjú árin,“ segir Þórdís.

Hún tekur fram að markmiðið sé að loka Vin því hugmyndir séu uppi hjá Reykjavíkurborg um að geðfatlaðir einstaklingar geti, líkt og aðrir borgarbúar, nýtt sér almennar félagsmiðstöðvar. „Ef þetta er raunhæfur möguleiki, að okkar fólk geti notað almennar félagsmiðstöðvar Reykjavíkurborgar, ætlum við ekki að standa í vegi fyrir því,“ segir Þórdís.

Sinna um 340 einstaklingum á ári

Hátt í 100 einstaklingar heimsækja Vin 10 sinnum eða oftar í mánuði. „Á ársgrundvelli eru þetta um 340 einstaklingar sem við sinnum hér,“ segir Þórdís og bætir við að Vin sé því eins konar félagsmiðstöð fyrir þennan hóp, sem bæði þurfi mikla hvatningu og að vel sé haldið utan um hann.

Aðspurð segir Þórdís að stöðugildi við Vin séu 3,7. „Við rekum Vin fyrir um tvær og hálfa milljón, fyrir utan launakostnað, á ári. Í það heila eru þetta 20 til 25 milljónir sem fara í Vin á ári með öllu, þ.e. rekstrinum á húsnæðinu, launakostnaði, mat og öllu saman. Þetta er því eitt ódýrasta þjónustutilboð sem Reykjavíkurborg hefur upp á að bjóða,“ segir Þórdís.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert