Víða á hálendinu norðan Vatnajökuls eru ljót sár eftir akstur jeppa og fleiri farartækja og verði ekkert að gert er ljóst að skemmdirnar munu enn aukast. Þórhallur Þorsteinsson segir nauðsynlegt að loka mörgum slóðum á meðan gert er við.
Þórhallur er vanur jeppamaður og hefur m.a. verið í forystusveit Ferðafélags Fljótsdalshéraðs í 25 ár.
Hann segir að það kosti tugi milljóna að lagfæra slóðana en ekkert réttlæti að hafa þá áfram opna í núverandi ástandi. Sífellt bætist við skemmdirnar.
Allir þeir slóðar sem Þórhallur nefnir eru aðgengilegir almenningi, m.a. í ferlasafni Ferðaklúbbsins 4x4 eða á kotum Máls og menningar. Þórhallur bendir á að trukkurinn sem sést á myndinni sem fylgir þessari frétt hafi í fyrra setið pikkfastur á Klausturselsleið á Fljótsdalsheiði. Sú leið hafi af einhverjum furðulegum ástæðum ratað inn á hálendiskort Máls og menningar en augljóst sé að hún eigi ekki heima þar. Leiðin sé aðeins fær, þótt hana ætti í raun ekki að aka, upphækkuðum jeppum á stórum dekkjum. Útlendingurinn sem ók leiðina í fyrrasumar hafi ekki haft hugmynd um að leiðin lægi um vota mýri þar sem bíll hans sat fastur. Björgunarsveit þurfti að senda á eftir bílnum með tilheyrandi aukaraski. Skemmdirnar eftir þennan tiltekna trukk bætast ofan á öll þau ljótu sár sem þegar hafa myndast.
Þórhallur segir algengt að sækja þurfi útlendinga sem hafi fest bíla sína á þessum stað. Hann segir þörf á stórátaki til að bæta úr samgöngumálum á hálendinu, bæði af hálfu hins opinbera og einstaklinga. Hann hefur ferðast um á jeppa um hálendið í rúmlega 30 ár. „Og mér finnst ótrúlegt hvað lítill árangur hefur náðst í baráttunni við utanvegaakstur á þessum árum,“ segir hann. „Og það sem við höfum séð á allra síðustu árum eru auknar vetrarskemmdir.“