Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra sagði á Alþingi í dag að hún vildi að kosið yrði næsta vor um þá þætti í aðildarviðræðum við ESB sem þá liggja fyrir. Þjóðin þyrfti að fá tækifæri til að koma að málinu á þessu kjörtímabili.
Illugi Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, spurði Svandísi út í afstöðu hennar til þessa máls í kjölfar yfirlýsinga tveggja þingmanna Samfylkingarinnar um að kjósa þyrfti um hvort halda eigi aðildarviðræðum við ESB áfram.
Svandís sagðist hafa talið tímabært að bera undir þjóðina spurninguna um hvort við ættum að ganga í ESB og þess vegna hefði hún stutt ályktun Alþingis um að sækja um aðild að ESB. Sjálf væri hún sannfærð um að við ættum ekki erindi inn í sambandið.
„Hins vegar verður það sífellt meira krefjandi viðfangsefni stjórnmálanna að koma því þannig fyrir að þjóðin geti tekið afstöðu til efnislegra þátta. Ég tel að slík atkvæðagreiðsla þurfi að eiga sér stað eigi síðar en við næstu þingkosningar, þ.e.a.s. að þjóðin geti tekið afstöðu til þeirra efnislegu þátta sem þá liggja fyrir í samskiptum Íslands og Evrópusambandsins. Það er ótækt að draga það ferli meira á langinn en svo. Þjóðin þarf að fá að koma að því máli. Því miður er ekki endilega útlit fyrir að við verðum með samning í höndunum, en þjóðin þarf sannarlega á þessu kjörtímabili að geta tekið afstöðu til aðildar að Evrópusambandinu. Ég hygg að það sé mikilvægt fyrir framtíðina,“ sagði Svandís.
Illugi sagði þessa yfirlýsingu stórpólitísk tíðindi.