Alþýðusamband Íslands telur óvíst hvort ríkisstjórnin getur fjármagnað nýja framkvæmdaáætlun sína. Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir annars vegar óvissu um fyrirhugað veiðigjald og hins vegar um áform um að selja hluti ríkisins í bönkunum. Þar komi lán á móti.
Gylfi segir ýmislegt í áætluninni vera fagnaðarefni.
„Það er ljóst að atvinnulífið hefur kallað eftir því, bæði við hjá Alþýðusambandi Íslands og fulltrúar atvinnulífsins, að farið verði í sókndjarfa áætlun varðandi nýsköpun. Það er þörf á því að fóstra nýjar hugmyndir.
Atvinnulífið og vinnumarkaðurinn hafa haft mikla aðkomu að átakinu 2020. Merkilegt er að í þeirri umræðu hefur farið mjög lítið fyrir stjórnmálamönnum. Þeir voru með í fyrstu skrefunum. Ég hef setið nokkra vinnufundi vegna þessa átaks og menn hafa saknað þess að þingflokkarnir sinni þessu meira. Margt af því sem hefur verið fjallað um á þessum fundum sér stað í fjárfestingaáætluninni, þar með talið um að leggja aukið fé í tækniþróun. Þá eru í henni áform um að efla græna hagkerfið í takt við þverpólitíska þingsályktunartillögu og er það einnig í takt við áherslur ASÍ á undanförnum misserum um að byggja eigi stóran hluta landsframleiðunnar á slíkum gildum. Okkar bíða ýmis spennandi tækifæri á sviði endurnýjanlegrar orku.“
Þarf að mennta tugþúsundir
Gylfi víkur að menntun og mikilvægi hennar fyrir nýsköpun.
„Við erum að glíma við þá stöðu að 40.000 manns á vinnumarkaði hafa mjög litla eða takmarkaða menntun ef horft er til viðurkennds framhaldsnáms. Það er alveg ljóst að það þarf að fjárfesta í aðstöðu til þess að fjölga þeim einstaklingum á vinnumarkaði sem hafa lokið viðurkenndu starfsréttindanámi.
Það eru því ákveðin vonbrigði að ekki er gert ráð fyrir slíkri fjárfestingu í þessari áætlun því áform um þróun og nýsköpun hljóta að kalla á menntað vinnuafl á vinnumarkaði. Framundan er líklega mesta átak Íslandssögunnar í þessa veru.
Ég hefði einnig talið mikilvægt að sumt af þessum verkefnum hæfust þegar á þessu ári, atvinnuleysið er vandamál núna og ekki bara á næsta ári. Sérstaklega á það við um ýmsar framkvæmdir sem nefndar eru.“
Mikið ofmat hjá stjórnvöldum
Gylfi segir óvissu um fjármögnun áætlunarinnar.
„Fjárfestingaáætlunin er hins vegar með þeim fyrirvara að það verði af þeim tekjum sem á að nota í hana. Fjármögnunin er ekki örugg. Nú er mikið deilt um getu sjávarútvegsins til að standa undir auðlindagjaldi. Það er mat ASÍ að það sé mikið ofmat hjá stjórnvöldum að gera ráð fyrir því að núverandi staða raungengis krónunnar verði hér um aldur og ævi. ASÍ telur, og Seðlabankinn er að ég held sammála, að núverandi staða gengisins sé ekki sjálfbær. Raungengi krónunnar hefur líklega aldrei verið jafn veikt. Það er veikara en fær staðist. Það mun styrkjast. Það er okkar von að það geti styrkst á markaði svo því fylgi minni verðbólga og lægri vextir.
Gamla aðferðin, sem notast var við fyrir 1990, gerist þá með meiri verðbólgu og launahækkun. Það er verið að fara þá leið núna. Raungengi krónunnar mun styrkjast og það þýðir að framlegð í sjávarútvegi mun minnka. Og það þýðir að þó að ríkisstjórnin komi sjávarútvegsfrumvörpunum óbreyttum í gegn er bjartasta vonin fyrir ríkissjóð að fá fjórðung af áætluðum tekjum af veiðigjaldi. Það er veikleiki þessarar fjárfestingaáætlunar.
Það er verið að gera ráð fyrir sex milljörðum úr veiðileyfagjaldi. Ég efast hins vegar um að gjaldið nái að skila svo miklu í heild. Áætlunin var kynnt þannig fyrir mér að ef gjaldið skilar ekki svo miklu er fyrirvari um framlög til þróunar og nýsköpunar. Það er því óviss fjármögnun á þessu. Það er verið að gera ráð fyrir að eignasala bankanna renni til þessara mála. Það á hins vegar eftir að selja bankana.
Það er alveg ljóst að öll þessi verkefni koma fram sem ríkisútgjöld en sala bankanna er eignasala. Það þýðir að það gengur á eignir ríkisins. Maður skyldi ætla að fjármunirnir yrðu nýttir til að minnka skuldirnar sem ríkið stofnaði til í því skyni að eignast bankana. Fjármögnunin er því óviss,“ segir Gylfi Arnbjörnsson.