Lögreglumenn á höfuðborgarsvæðinu höfðu í gærkvöldi og í nótt afskipti af fjölda manna í fíkniefnatengdum málum. Að sögn lögreglu var alls um 15-20 slík mál að ræða í nótt.
Þá voru tveir menn kærðir í nótt fyrir brot á lögreglusamþykkt, en þeir köstuðu af sér vatni á styttur Einars Jónssonar fyrir framan stjórnarráðshúsið í Lækjargötu. Að venju var einnig mikið um útköll vegna ölvunar og hávaða í nótt.
Lögregla og slökkvilið höfuðborgarsvæðisins voru í tvígang kölluð út vegna eldsvoða. Í öðru tilvikinu var tilkynntur eldur í kofa við Árbæjarsundlaug skömmu fyrir miðnætti. Ekki var talin nein hætta á ferð og afgreiddi slökkviliðið málið. Síðara eldsútkallið var um klukkan hálfþrjú í nótt, en þá var tilkynnt um eld í bifreið við Súðarvog og slökkti slökkviliðið eldinn, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.