Kostnaðarsöm skoðanakönnun sem skili litlu

Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.
Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins. mbl.is

„Ég vil meina að ríkisstjórnin hafi klúðrað þessu máli algjörlega með meðferðinni hér á þinginu," sagði Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, í umræðum um þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs að stjórnarskrárbreytingum. Málið er hið eina sem er á dagskrá þingfundar í dag.

Vigdís gagnrýndi að engin efnisleg umræða hefði farið fram á þinginu um tillögur stjórnlagaráðs að breytingum á stjórnarskrá. „Varðandi ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu þá óttast ég líka að það verði mjög lítil kosningaþátttakaa í þessari skoðanakönnun vegna þess að við kjósendur vitum fyrirfram að þetta er ráðgefandi og stjórnvöld ekki bundin af úrslitunum," sagði Vigdís.

Vill kjósa samhliða um ESB

Því mætti segja að þjóðaratkvæðagreiðsla á þessu stigi málsins væri tilgangslaus. Fjöldi breytingartillagna hefur verið lagður fram um málið, m.a. hefur Vigdís lagt fram tillögu um að samhliða verði kosið um hvort draga eigi til baka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu.

„Eina leiðin sem ég sé til að hífa upp þátttöku í þessari ráðgefandi skoðanakönnun er að við fáum að segja álit okkar samhliða um hvort við eigum að draga til baka umsókn okkar um aðild að ESB," sagði Vigdís. Hún benti á að sögulega lítil þátttaka hefði verið í stjórnlagaþingskosningunni og að það yrði „skelfilegt ef það yrði kannski bara 10% þátttaka" í þjóðaratkvæðagreiðslunni um breytingartillögurnar.

Afleiðingarnar skaðlegar

Sigmundur Davíð, formaður Framsóknarflokksins, sagði það mjög óljóst hvað hægt væri að gera við niðurstöður atkvæðagreiðslunnar, hverjar svo sem þær yrðu. Sagðist hann hafa áhyggjur af því „að ekki aðeins munum við fá takmarkaðar upplýsingar út úr þessu, þetta verði ekki bara kostnaðarsöm skoðanakönnun sem skili litlu, heldur geti niðurstaðan beinlínis skaðað þetta ferli allt saman“.

Sagðist hann telja að tilgangur ríkisstjórnarinnar væri að verða sér úti um „óútfylltan tékka" með þjóðaratkvæðagreiðslunni, biðja um leyfi til að útfæra hlutina sjálf.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert