Kristbjörg dregin til Eyja

Þyrla og björgunarskip Landhelgisgæslunnar fóru á vettvang en ekki kom …
Þyrla og björgunarskip Landhelgisgæslunnar fóru á vettvang en ekki kom til kasta þeirra. Mynd úr safni. mbl.is/Rax

Neta- og dragnótabáturinn Kristbjörg VE-071 er nú á leið til Vestmannaeyja í eftirdragi línubátsins Páls Jónssonar GK7. Landhelgisgæslan aflýsti hættuástandi í Meðallandsbukt, þar sem Kristbjörg var vélarvana, á öðrum tímanum í nótt en þá var taug komin milli skipanna og þau fjarlægðust land.

Kristbjörg varð vélarvana á tíunda tímanum í gærkvöld eftir að eitthvað fór í skrúfuna. Þyrla Landhelgisgæslunnar sem var nýkomin frá Keflavík var send á staðinn auk björgunarskips Slysavarnafélagsins Landsbjargar frá Vestmannaeyjum og Höfn sem og björgunarsveitum af Suðurlandi sem biðu átekta í landi við Skarðsfjöru.

Skipverjum Kristbjargar tókst að varpa akkerum og stöðva þannig rek skipsins til lands um 1 sjómílu frá landi. Nærliggjandi skip voru í um 25 sjómílna fjarlægð. Það fyrsta á vettvang var línubáturinn Páll Jónsson GK7 sem tók Kristbjörgu á tog og var haldið á dýpri sjó. Þegar ljóst var að það gengi eftir héldu björgunarsveitir, bátar og þyrlan síns heima án þess að til kasta þeirra kæmi og Landhelgisgæslan aflýsti hættuástandi.

Togarinn Jón Vídalín fór til móts við bátana og tók við Kristbjörgu, sem dregin var til Vestmannaeyja þaðan sem skipið er gert út. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert