Fyrstu niðurstöður rannsóknar á flugvél Icelandair, sem lent var svokallaðri öryggislendingu í Keflavík í gær, sýna að lega inni í einu hjólinu gaf sig með þeim afleiðingum að hjólið læstist og brotnaði af. Vitað er til þess að hjól hafi brotnað af samskonar flugvélum áður, en eftir er að rannsaka orsökina.
Ragnar Guðmundsson, flugvélaverkfræðingur hjá Rannsóknarnefnd flugslysa, mætti að vélinni ásamt björgunarliði strax eftir lendingu í gærkvöld. Þá fékkst staðfest að hjólið sem losnaði var vinstra megin í aftara aðalhjólastelli. „Við fundum hjólið og hluti úr legunni sem losnuðu á sama tíma og tókum það í okkar vörslu,“ segir Ragnar. Hjólið losnaði undan þegar vélin hóf sig á loft.
Ragnar segir að frekari rannsókn sé nú eftir til að komast að því af hverju legan læstist. Kallað hefur verið eftir gögnum frá Icelandair og segir Ragnar að það sem helst sé leitað eftir sé upplýsingar um síðustu yfirhalningu á hjólabúnaðinum og þegar legan var sett í. Hann segir að töluverður tími sé síðan þetta tiltekna hjól fór undir vélina.
Bilunin var skilgreind sem „alvarlegt flugatvik“ og fór mikill viðbúnaður í gang, en Ragnar segir að bilunin sé í raun ekki umfangsmikil. Hjólið sem fór af var eitt af átta í aðalstelli aftan á vélinni, en tvö hjól til viðbótar eru á nefi hennar. Sjö hjól voru því enn aftan á henni og gekk lendingin mjög vel.
Þegar rannsókn á vettvangi var lokið í gær var vélin færð í skýli Icelandair Technical Services þar sem gert verður við hana. Að sögn Ragnars er vitað til þess að sambærileg atvik hafi áður komið upp í þessari gerð flugvéla. „Við vitum af svipuðum atvikum þar sem afleiðingin var sú sama, þar sem hjól losnar frá, en hvort orsökin er sú sama vitum við ekki. Það er í raun eitt af því sem þessi rannsókn á eftir að leiða í ljós."