Fjögurra manna leiðgangur á vegum Íslenskra fjallaleiðsögumanna lauk í vikunni 27 daga gönguskíðaferð þvert yfir Grænland. Alls fór hópurinn, þrír Kanadamenn og Róbert Þór Haraldsson leiðsögumaður, 550 km leið í misjöfnu veðri.
Að sögn Róberts hófst leiðangurinn hinn 19. apríl er hópurinn flaug með þyrlu upp á Hahn-jökul við Angmassalik í austurhluta Grænlands. Lá leiðin upp að yfirgefinni radarstöð Bandaríkjahers, DYE-2, á Grænlandsjökli en þangað kom hópurinn 9. maí. Snjóaði oft hressilega á hópinn á ferðalaginu og færið mjög þungt en hver leiðangursmaður var með um 70 kg af farangri á sleða sem hann dró á eftir sér.
Frostið fór niður í 27 gráður
Róbert segir að einn daginn hafi þeir þurft að halda kyrru fyrir vegna óveðurs en hópurinn lenti í þremur „veðurhvellum“ á ferðalaginu. Einhverja daga skein sól og þá tók við nýtt vandamál, sólbruni. Frostið fór niður í 27 gráður en ferðalagið var allt á jökli, allt upp í 2.500 metra hæð, og færið oft þungt vegna ofankomunnar.
Hann segir að skilyrði fyrir því að fólk fari í ferðalag sem þetta sé að það sé í mjög góðu ástandi líkamlega og andlega en Íslenskir fjallaleiðsögumenn hafa í sjö skipti farið með hópa þvert yfir Grænland auk þess að bjóða upp á margvíslegar aðrar ferðir á Grænlandi sem og á Íslandi.
Háar jökulöldur gerðu þeim lífið leitt
Mjög vindasamt er austanmegin á jöklinum og oft erfitt að berjast áfram með vindinn í fangið. Að sögn Róberts var það ákveðinn léttir þegar vestar dró en ferðinni lýkur í Syðri-Straumsfirði.
„Það var mjög krefjandi þegar við vorum að fara niður af jöklinum í vestri. Það er mun hlýrra vestanmegin á jöklinum og mikið ísingarvatn alls staðar. Við þurftum að komast yfir tjarnir sem voru nokkur hundruð metrar að lengd og breidd og bókstaflega rennandi vatn í allar áttir. Eins voru háar jökulöldur sem var erfitt að komast yfir með sleðana. Þetta þýddi að við fórum afar hægt yfir í lokin og fórum þetta á lengri tíma en við höfðum gert ráð fyrir. Til að mynda tók það okkur heilan dag að fara rúmlega sjö kílómetra leið,“ segir Róbert en hópurinn endaði með því að taka allan farangurinn á bakið síðasta hlutann þegar algjörlega ófært var með sleðana í eftirdragi.
Er náttúrlega hörkupúl
Aðspurður hvort ferðalag sem þetta reyni ekki á fólk segir Róbert að álagið sé ekki bara líkamlegt heldur einnig andlegt. „Þetta er náttúrlega hörkupúl að rífa sig upp klukkan sex á hverjum morgni og draga 70-80 kg sleða á eftir sér í átta klukkutíma. Þetta er auðvitað áræði að ætla sér að fara þarna yfir sama hvað það kostar. Það er ekkert sjálfgefið að menn komist yfir og margir sóttir upp á jökulinn áður en ferð lýkur,“ segir Róbert sem var í sambandi við félaga sína hjá Íslenskum fjallaleiðsögumönnum annan hvern dag meðan á ferðalaginu stóð.
Hann segir ævintýri að fara í ferð sem þessa en þetta er í fyrsta skiptið sem hann fer þessa leið þrátt fyrir að hafa farið víða með hópa um Grænland. Eins hefur hann farið með hópa þvert yfir Ísland, frá Ásbyrgi og endað í Víkurfjöru, auk fjölmargra annarra ferða á vegum Íslenskra fjallaleiðsögumanna um hálendi Íslands.
Hér er hægt að skoða ferðasögnuna á vef Íslenskra fjallaleiðsögumanna