Alvarleg líkamsárás var gerð við Grandagarð í Reykjavík í gærkvöldi en þar var tilkynnt um blóðugan mann laust fyrir klukkan 20.
Að sögn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu var maðurinn fluttur á slysadeild til aðhlynningar og síðan á gjörgæsludeild Landspítala þar sem hann er undir eftirliti.
Árásarmaðurinn var handtekinn skammt frá þeim stað þar sem hinn maðurinn fannst og fluttur í fangageymslu. Lögreglan segir að báðir mennirnir hafi verið mjög ölvaðir.
Fleiri líkamsárásir komu til kasta lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í nótt. Um klukkan 1 var tilkynnt líkamsárás á veitingahúsi við Laugaveg en þar hafði maður slegið dyravörð. Maðurinn hafði áður áreitt gesti staðarins og verið vísað út.