Birgitta og aðrir aðgerðasinnar lýsa yfir sigri

Birgitta Jónsdóttir flytur ræðu. Lögmaður sjömenninganna segir dómsúrskurðinn mikinn sigur …
Birgitta Jónsdóttir flytur ræðu. Lögmaður sjömenninganna segir dómsúrskurðinn mikinn sigur fyrir tjáningarfrelsið.

Dómsúrskurður var í síðustu viku felldur í máli Birgittu Jónsdóttur og sex annarra sem stefnt hafa bandarískum stjórnvöldum fyrir rétt í New York, vegna nýrra laga þar í landi sem hópurinn segir að gefi Bandaríkjaher heimild til að handtaka almenna borgara hvar sem er í heiminum og hneppa þá í varðhald án dóms og laga. 

Dómsúrskurðurinn felur í sér að óheimilt sé að framfylgja tveimur greinum laganna, þar sem þær standist ekki stjórnarskrá. Þar með er talin grein 1021 sem kveður á um varðhald án dóms og laga. Dómarinn, Katherine Forrest, fellst því á lögbannskröfu sjömenninganna, sem ásamt Birgittu Jónsdóttur eru m.a. málvísindamaðurinn Noam Chomsky og rithöfundurinn Naomi Wolf. 

Á vefmiðlinum Sparrow Project er haft eftir Birgittu Jónsdóttur að vegna aðgerða nokkurra einstaklinga hafi verið hægt að stýra framvindu málsins í betri farveg, almenningi til heilla. „Við viljum jú búa í veröld sem virðir tjáningarfrelsi í orði og á borði. Í niðurstöðu dómsins gæti falist tækifæri fyrir Bandaríkin til að endurheimta stöðu sína sem leiðandi aðili þegar kemur að því að setja viðmiðin um mál- og tjáningarfrelsi,“ sagði Birgitta. 

Huffington Post hefur eftir Bruce Afran, lögmanni hópsins, að úrskurðurinn sé „mikill sigur fyrir málfrelsið“.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert