Stærðarinnar herskip liggur nú við akkeri úti fyrir ytri höfn Reykjavíkur. Skipið er nokkuð óvenjulegt útlits, alhvítt að lit og búið fjölda gervihnattadiska, en um er að ræða franska rannsóknarskipið Monge. Að sögn Landhelgisgæslunnar hefur skipið heimild frá utanríkisráðuneytinu til nokkurra daga dvalar vegna rannsóknarstarfa við landið.
Á vefsíðunni Military Today segir að Monge sé eitt af afar fáum fjarskiptaskipum í heimi og hvorki rússneski né bandaríski flotinn búi yfir sambærilegu rannsóknarskipi. Það er meðal annars notað til geimeftirlits af Geimstofnun Frakklands, en nýtist einnig við söfnun gagna fyrir leyniþjónustuna. Búnaður þess er afar fullkominn og má þar nefna eftirlitstæki til leitar í lofti og legi og mælitæki sem fylgjast með og túlka gögn um jafnt flugskeyti sem gervihnetti. Búnaðurinn um borð er sagður krefjast álíka mikils rafmagns og þyrfti til að knýja um 20.000 manna borgar.
Monge er nefnt í höfuðið á franska stærðfræðingnum Gaspard Monge sem var til skamms tíma ráðherra franska sjóhersins. Skipið er tæplega 230 metra langt og um borð er 220 manna áhöfn. Sem fyrr segir er skipið alhvítt, í stað hins hefðbundna gráa litar flestra herskipa. Það mun vera gert til þess að draga úr hita frá geislum sólar sem truflað gæti ratsjána um borð. Monge fer ekki hratt yfir, en hámarks-siglingahraði þess er um 15 hnútar.