„Við vöknuðum við þetta í nótt um fjögurleytið, þar sem öll blokkin var á ferðinni. Við rétt svo fórum á fætur, ég og kærastan og sáum að það var umgangur í blokkinni. Við fórum nú aldrei út og sáum að allt var eiginlega með kyrrum kjörum, fórum bara að sofa aftur og áttuðum okkur ekki á því fyrr en í morgun hversu stór skjálftinn var,“ segir Hermann Aðalgeirsson, Húsvíkingur sem býr ásamt kærustu sinni í miðborg Bologna á Ítalíu þar sem jarðskjálfti upp á 6,0 reið yfir í nótt.
„Við kannski tókum þessu nú fullkæruleysislega, en það var eins og ég segi ekkert fyrr en við fórum á netið í morgun og heyrðum í vinum okkar að við áttuðum okkur á því hversu alvarlegur hann var,“ segir Hermann.
Hvernig er ástandið þarna? Það er talað um að séu hús skemmd. Er það sjáanlegt?
„Við höfum í rauninni ekki séð neitt hérna. Ég held að það hafi nú farið nokkuð vel. Þetta er meira hérna í útjaðri borgarinnar og svo í bæjunum hérna í kring, Ferrara og Modena. Vinkona okkar býr í Ferrara og þar eru miklar skemmdir og hún vaknaði klukkan fjögur í nótt og fór út á götu og var ekki farin heim til sín um miðjan dag í dag. Þetta er hérna rétt utan við. Það er víst slæmt hérna í Bologna líka, en við höfum ekkert séð niður í bæ.“
Hvernig er andrúmsloftið í borginni?
„Við urðum nú ekki vör við neitt til að byrja með en svo kom eftirskjálfti um þrjúleytið þegar við vorum að læra á bókasafninu sem var alls ekki stór, en fannst fyrir. Þá skynjaði maður fyrst almennilegan ótta. Það þustu allir út og vissu í rauninni ekki hvað var að gerast. Í kjölfarið var bókasafninu og að ég held megninu af þessum skólabyggingum lokað. Fólk var beðið um að halda sig heima eða á svæði sem það treysti sér til að vera á. Maður hefur aðallega skynjað þetta í gegnum einhverja sem maður þekkir, einhverja Ítala, sem kannski upplifa þetta aðeins sterkara en við, því við vorum á hálfu róli yfir þessu í nótt og áttuðum okkur ekki á því hvað þetta var stórt.“
Fór mikið úr skorðum í íbúðinni hjá ykkur?
„Nei, okkar íbúð slapp alveg og þess vegna áttuðum við okkur kannski ekki alveg á þessu. Íslensk stelpa sem ég þekki hérna lenti þó í því að blokkin sem hún býr í varð rafmagnslaus.“
Eru einhverjar opinberar fyrirskipanir á svæðinu?
„Ekki nema bara á bókasafninu þar sem við vorum að læra þar sem mælt var með því að fara heim og vera inni þar sem maður væri snöggur út eða hreinlega vera úti. Það var svosem engin opinber fyrirskipun, en það var mælt með því að vita af ástandinu. Það voru litlir skjálftar og þeir vita ekki neitt í rauninni.“
Hefur íslenska sendiráðið í París haft samband við ykkur?
„Nei - enginn haft samband við okkur. Ég hef reyndar heyrt í þeim Íslendingum sem við þekkjum hérna. Við erum fjögur hérna sem erum í skóla. Einn strákurinn er reyndar ekki í borginni og hann fann ekkert fyrir þessu. Ég veit svosem af okkur öllum í góðum málum, en það hefur ekkert verið haft samband við okkur.“
Hermann segir að það hafi verið áberandi hversu fáir voru úti á stjái í dag miðað við venjulegar helgar, en að aukin löggæsla hafi verið áberandi í borginni í dag.