Formenn Sjálfstæðisfélagsins Óðins á Selfossi og fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélaganna í Árborg vilja koma á framfæri eftirfarandi leiðréttingu vegna fréttar á Stöð 2 og mbl.is þar sem haft er eftir Helga Haraldssyni (bæjarfulltrúa Framsóknarflokksins) í gærkvöldi.
„Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Árborg, nýtur fulls trausts okkar og hefur gert í öllu því ferli sem hefur verið í gangi undanfarna daga.
Í fréttinni kemur fram að fulltrúaráð eða flokksráð Sjálfstæðisflokksins í Árborg hafi hist á fundi í gær en það rétta er að stjórnir Sjálfstæðisfélaganna í Árborg og stjórn fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélaganna í Árborg hittust á fundi ásamt bæjarstjórnarlista flokksins til að fara yfir kostina í stöðunni. Niðurstaða þess fundar sýnir það að bæjarstjórnarmeirihluti flokksins nýtur fulls trausts stjórna fulltrúaráðsins og Sjálfstæðisfélaganna í Árborg,“ segir í yfirlýsingu sem formennirnir hafa sent frá sér.