„Ég hlýt að skilja það þannig þegar Hreyfingin öðru hvoru er að lýsa samningaviðræðum við ríkisstjórnina og aðkomu sinni að lausn skuldavandamála hlýtur það að þýða að þeir séu að fara að taka þátt í ríkisstjórnarsamstarfinu. Það getur ekki verið neitt annað,“ segir Ólöf Nordal, varaformaður Sjálfstæðisflokksins
„Og þegar því er lýst fyrir helgina, út af þessari fjárfestingaráætlun, að Guðmundur Steingrímsson hafi komið að því og Jóhanna Sigurðardóttir fagnar því sérstaklega að hann skuli vera kominn til liðs við þau, þá hlýtur maður að skilja það svo að hann sé í raun kominn til liðs við ríkisstjórnina,“ segir Ólöf spurð út í ummæli sín á fésbókarsíðu sinni í dag þar sem því er velt upp að í landinu kunni að vera að myndast fjögurra flokka ríkisstjórn með aðkomu Guðmundar Steingrímssonar, formanns Bjartrar framtíðar og þingflokks Hreyfingarinnar.
Í aðsendri grein forsætisráðherra í Fréttablaðinu í gær sagði Jóhanna Sigurðardóttir: „Ég fagna aukinni samstöðu á Alþingi um mikilvæg hagsmunamál þjóðarinnar. Það á ekki aðeins við um undirbúning og gerð þeirrar fjárfestingaáætlunar sem hér er reifuð. Þar hefur Guðmundur Steingrímsson, þingmaður Bjartrar framtíðar, lagt gjörva hönd á plóg.“
„Hún er greinilega ekki með meirihluta,“ sagði Ólöf sem skýringu á því hvers vegna forystumenn ríkisstjórnar, sem hafa á bak við sig þingflokka sem hafa á að skipa meirihluta þingmanna, eru í viðræðum við aðra flokka um ýmis mál þegar innan við ár er eftir að kjörtímabilinu.
„Hún sagði núna síðast á föstudaginn í fyrirspurnartíma þegar ég spurði hana um Árna Pál, gjaldeyrishöftin og Evrópusambandið að það væri fráleitt hjá mér að halda því fram að það væri minnihlutastjórn í landinu. En hvernig getur hún haldið því fram að það sé meirihlutastjórn og á sama tíma verið látlaust í samningaviðræðum við aðra flokka?“