„Aldrei verið vitlausara að ganga inn í ESB"

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra.
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra. mbl.is/Ómar

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra segir að það hafi aldrei verið vitlausara en nú að ganga í Evrópusambandið. Þetta sagði Ögmundur í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.

„Ég hef verið því fylgjandi í langan tíma að við flýttum þessi ferli og flýttum afgreiðslu þessa máls. Og eitt er ég alveg vissum. Að aldrei, aldrei hefur það verið vitlausra en nú að ganga inn í Evrópusambandið,“ sagði Ögmundur

Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, spurði Ögmund út í ESB-umsóknina og sagði einkennilegt að ríkisstjórnin vilji enn sækja um aðild að sambandinu miðað við þann vanda sem blasi við í álfunni. Vigdís vill draga umsóknina til baka og hvetur til þess að þingið gangi til atkvæðagreiðslu um málið.

Ögmundur vill að afgreiðslu málsins verði flýtt og hann kveðst vilja skjóta málinu til þjóðarinnar en án aðkomu þingsins. „Það hefur verið mín afstaða,“ sagði Ögmundur.

Vigdís segir aftur á móti að ekki sé hægt að gera þetta án aðkomu þingsins. „Ég vona að ráðherrann átti sig á því að þessu máli verður ekki komið til þjóðarinnar nema með aðkomu þingsins,“ sagði Vigdís. Því sé mikilvægt að þingið fái málið í hendurnar sem fyrst, svo hægt sé að koma því til þjóðarinnar.

„Því spyr ég ráðherrann: Eigum við ekki að láta til skarar skríða í eitt skipti fyrir öll og klára þetta mál hér á þessu vorþingi og koma því í þjóðaratkvæðagreiðslu,“ spurði Vigdís.

Ögmundur tekur fram að afstaða sín gagnvart aðild að ESB sé ekki ný af nálinni. Hún hafi ávallt verið skýr, en hann ítrekaði það að hann hafi ávallt verið andvígur því að ganga í Evrópusambandið. Að sínu mati sé ekkert því til fyrirstöðu að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um málið hið fyrsta.

„Ég hef alla tíð verið andvígur því að við gengum inn í Evrópusambandið. Og fyrir mitt leyti hefur ekki þurft neinar viðræður til að leiða það í ljós. Það er hins vegar svo, að það er stór hluti þjóðarinnar sem hefur viljað fá skýrari línur í þetta. Fá að vita hvað er í pokanum eins og stundum er sagt. Það er að koma á daginn hvað það er. Og ekkert því til fyrirstöðu að við efnum til þjóðaratkvæðagreiðslu hið fyrsta. Þannig að ég er sammála háttvirtum þingmanni að þessu leyti, að það er mikilvægt að taka þetta mál til afgreiðslu en að það verði þjóðin sem skeri úr um hvert framhaldið verður,“ sagði Ögmundur Jónasson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert