„Það er verið að kaupa stuðning. Það á að framlengja líf ríkisstjórnarinnar.“
Þetta segir Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, um nýja fjárfestingaáætlun stjórnvalda, nánar tiltekið þau áform að verja auknu fé til samgangna á landsbyggðinni, m.a. með fé sem sótt verður í veiðigjöld.
Fram kemur í áætluninni, í liðnun Fjármögnun með sérstöku veiðigjaldi, að verja eigi 7,5 milljörðum til samgangna á árunum 2013-2015, með sérstaka veiðigjaldinu sem ætlunin er að leggja á útgerðina.
Halldór gagnrýnir harðlega að fyrirhugaðar samgöngubætur, þar með talið jarðgöng, skuli skilyrtar með þessum gjöldum, en hann tekur fram að hann tjái sig um málið persónulega en ekki sem formaður samtakanna sem hann fer fyrir.