Dómnefndir landanna greiða sín atkvæði í kvöld

Jón Jósep Snæbjörnsson og Greta Salóme Stefánsdóttir á sviðinu í …
Jón Jósep Snæbjörnsson og Greta Salóme Stefánsdóttir á sviðinu í Bakú.

„Æfingin áðan gekk mjög vel. Það er gaman að sjá þetta allt saman í samhengi núna. Þau voru flott og atriðið algjörlega tilbúið,“ sagði Hrafnhildur Halldórsdóttir, dagskrárgerðarkona hjá Ríkisútvarpinu, þegar mbl.is náði af henni tali í Kristalshöllinni í Bakú í Aserbaídsjan nú fyrir stundu. Fyrri æfingunni af tveimur í dag var tiltölulega nýlokið og styttist í þá seinni. 

„Við erum búin að vera að venja okkur smám saman við að byrja allt svona seint. Fyrri æfingin byrjaði kl. 18.00 að staðartíma og sú síðari hefst á miðnætti eða kl. 19.00 að íslenskum tíma, eins og það verður annað kvöld. Búist er við fullri höll bæði í kvöld og á morgun en uppselt er á öll rennsli auk keppninnar sjálfrar,“ bætir hún við.

Dómnefndir greiða atkvæði í kvöld
Æfingin í kvöld er svokölluð dómaraæfing þar sem dómnefndir allra landanna, hver og ein skipuð fimm aðilum, horfir á rennslið í beinni, innilokuð í lokuðu herbergi í hverju landi fyrir sig og greiðir í kjölfarið atkvæði sitt. Atkvæði dómnefndarinnar gilda síðan til hálfs á móti atkvæðum úr símakosningu hvers lands fyrir sig. „Þetta er því mikilvæg æfing,“ segir Hrafnhildur.

Mikill áhugi á Norðurlöndunum
Mikill áhugi virðist vera á Norðurlöndunum á svæðinu og greinilegt að þau þykja sterk í þessari keppni. Af þeim keppa Danmörk og Finnland með Íslandi á morgun, þriðjudag. Svíþjóð og Noregur keppa síðan á fimmtudaginn. 

Að öðru leyti lætur hópurinn vel af sér í þessari „borg vindanna“ en svo kallast Bakú einnig  vegna ljúfs andvara sem streymir oftar en ekki frá Kákasusfjöllunum. Í dag var um 30 stiga hiti í borginni að sögn Hrafnhildar, og því frábært að aðeins léki loft um mannskapinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert