Dregur úr brottkasti

Reuters

Brottkast þorsks var 659 tonn árið 2010 eða 0,43% af lönduðum afla, og er það næstlægsta hlutfall tímabilið 2001-2010. Brottkast ýsu var 727 tonn eða 1,17% af lönduðum afla 2010, og er það einnig næstlægsta brottkastshlutfall ýsu 2001-2010.

Þetta kemur í grein sem Ólafur K. Pálsson, Höskuldur Björnsson, Hrefna Gísladóttir, Guðmundur Jóhannesson og Þórhallur Ottesen hafa ritað. 

Í þessari grein er lýst helstu niðurstöðum mælinga á brottkasti botnfiska,sem fram fóru árin 2001-2010, þar sem niðurstöður hafa verið endurreiknaðar með samræmdri gagnameðhöndlun. Mælingar á brottkasti beindust einkum að þorsk- og ýsuveiðum í helstu veiðarfæri.

Tímabilið 2001-2010 var meðalbrottkast þorsks sem hlutfall af lönduðum afla hæst í dragnótaveiðum (2,70%) og netaveiðum (1,34%), en minna í botnvörpuveiðum (0,77%) og línuveiðum (0,38%).

Meðalbrottkast ýsu 2001-2010 var mest í dragnótaveiðum (4,30%) og botnvörpuveiðum (2,47%) en minnst í línuveiðum (0,40%). Meðalbrottkast þorsks 2001-2010 í öll veiðarfæri var 0,90% af lönduðum afla (1680 tonn) en brottkast ýsu 2,02% (1488 tonn). Brottkast þorsks og ýsu hefur verið minna síðustu þrjú til fjögur árin en fyrri ár tímabilsins 2001 til 2010.

Sjá nánar hér

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert