Brottkast þorsks var 659 tonn árið 2010 eða 0,43% af lönduðum afla, og er það næstlægsta hlutfall tímabilið 2001-2010. Brottkast ýsu var 727 tonn eða 1,17% af lönduðum afla 2010, og er það einnig næstlægsta brottkastshlutfall ýsu 2001-2010.
Þetta kemur í grein sem Ólafur K. Pálsson, Höskuldur Björnsson, Hrefna Gísladóttir, Guðmundur Jóhannesson og Þórhallur Ottesen hafa ritað.
Í þessari grein er lýst helstu niðurstöðum mælinga á brottkasti botnfiska,sem fram fóru árin 2001-2010, þar sem niðurstöður hafa verið endurreiknaðar með samræmdri gagnameðhöndlun. Mælingar á brottkasti beindust einkum að þorsk- og ýsuveiðum í helstu veiðarfæri.
Tímabilið 2001-2010 var meðalbrottkast þorsks sem hlutfall af lönduðum afla hæst í dragnótaveiðum (2,70%) og netaveiðum (1,34%), en minna í botnvörpuveiðum (0,77%) og línuveiðum (0,38%).
Meðalbrottkast ýsu 2001-2010 var mest í dragnótaveiðum (4,30%) og botnvörpuveiðum (2,47%) en minnst í línuveiðum (0,40%). Meðalbrottkast þorsks 2001-2010 í öll veiðarfæri var 0,90% af lönduðum afla (1680 tonn) en brottkast ýsu 2,02% (1488 tonn). Brottkast þorsks og ýsu hefur verið minna síðustu þrjú til fjögur árin en fyrri ár tímabilsins 2001 til 2010.