Síðari umræða um þingsályktunartillögu um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá stendur enn yfir í þinginu og eru níu þingmenn á mælendaskrá. Umræðan hefur staðið yfir frá því um miðjan dag í dag.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, lagði áherslu á það í ræðustól Alþingis að stjórnarskrá mætti ekki vera eins og stefnuskrá stjórnmálaflokks þar sem talið væri upp það sem stefnt væri að.
Hann sagði ljóst að ýmislegt mætti betur fara í núverandi stjórnarskrá Íslands og að ekki væri uppi ágreiningur um að fara þyrfti í það að lagfæra það sem þar þyrfti að laga. Mikilvægt væri hins vegar að sátt skapaðist um þá stjórnarskrá sem ætlunin væri að fara eftir.