Gæti kostað 23-27 milljarða á ári

Kostnaður ríkissjóðs við nýtt húsnæðisbótakerfi gæti orðið 23-27 milljarðar. Bætur fjögurra manna fjölskyldu sem fær óskertar húsnæðisbætur samkvæmt kerfinu yrðu 37.400 krónur á mánuði eða 528 þúsund á ári.

Vinnuhópur á vegum velferðarráðherra skilaði í dag skýrslu um húsnæðisbætur. Hópurinn leggur til að tekið verði upp eitt húsnæðisbótakerfi fyrir alla landsmenn, óháð búsetuformi. Í dag er hið opinbera að niðurgreiða húsnæðiskostnað heimilanna með ýmsum hætti. Um 14 milljörðum er varið í vaxtabætur fyrir þá sem eiga húsnæði. Um 6,5 milljarðar fara í sérstakar vaxtabætur, en þær voru hugsaðar sem tímabundin aðgerð vegna áranna 2011 og 2012. Um 4,3 milljarðar fara í almennar húsaleigubætur og um einn milljarður í sérstakar húsaleigubætur. Það eru sveitarfélögin og ríkissjóður sem greiðir húsaleigubætur, en ríkissjóður greiðir vaxtabætur.

Lúðvík Geirsson, formaður vinnuhópsins, segir að mikill munur sé á stuðningi hins opinbera eftir því hvort fólk á húsnæðið sem það býr í eða leigir það. Hann nefndi sem dæmi að reiknað hafi verið út að fjölskylda með meðaltekjur og með um 150 þúsund króna húsnæðiskostnað á mánuði hefði á árunum 2000-2010 fengið samtals um 7,5 milljónir í vaxtabætur frá ríkinu. Ef þessi sama fjölskylda hefði búið í leiguhúsnæði hefði hún ekki fengið neitt.

Lúðvík tók fram að þessar tillögur væru ekki til komnar vegna hrunsins og erfiðleika heimilanna við að ráða við húsnæðiskostnað heldur væri þær hugsaðar til framtíðar og vegna þess að núverandi kerfi hefði marga ókosti.

Lúðvík sagði að vinnuhópurinn hefði lagt áherslu á að búa til einfalt kerfi. Kerfið gerði ráð fyrir að stuðningurinn miðaði við fjölskyldustærð. Ekki ætti að skipta máli aldur þeirra sem búa á heimili, en í núverandi húsaleigubótakerfi miðar við aldur barna.

Grunnupphæð yrði 22 þúsund kr. á mánuði

Við útreikning á upphæð húsnæðisbóta hefur verið stuðst við upplýsingar frá Hagstofunni um lágmarksframfærslu. Miðað er við að grunnupphæð húsnæðisbóta fyrir einstakling sé 22 þúsund á mánuði eða 264 þúsund á ári. Ef tveir eru á heimili fer upphæðin upp í 30.800 kr. Ef þrír eru á heimili er miðað við 37.400. Ef fjórir eru á heimili er miðað við 44.000 kr. Ef fimm eru á heimili er miðað við 46.200 kr og ef sex eða fleiri eru á heimili er upphæðin 48.400 kr.

Þeir sem hafa tekjur undir 203 þúsund krónum á mánuði fá fullar húsnæðisbætur, en bætur skerðast ef tekjur fara yfir þá upphæð. Vinnuhópurinn leggur til að skerðingarprósentan verði á bilinu 5-7%. Gert er ráð fyrir að við skerðingu sé miðað við heildartekjur fólks, en þó á eftir að skoða betur samspil barnabóta og húsnæðisbóta.

Þessi breyting þýðir að fólk sem er með meðaltekjur og er á leigumarkaði fær húsnæðisbætur sem það vær ekki í dag. Jafnframt er ljóst að bætur þeirra sem fá mest út úr vaxtabótakerfinu í dag munu minnka í þessu nýja kerfi.

Heildarkostnaðurinn við þetta kerfi er áætlaður 23,1-27,5 milljarðar eftir því við hvaða tekjuskerðingarprósentu er miðað. Útreikningurinn byggist á tölum frá árinu 2010.

Gæti hækkað leiguverð

Lúðvík leggur áherslu á að ekki sé hægt að koma þessu nýja kerfi á í einni svipan. Hann telur líklegt að það geti tekið 3-4 ár. Eitt af því sem hafa þurfi í huga er að hætta sé á að svona kerfi geti stuðlað að almennri hækkun á húsaleigu og það þurfi að hafa það í huga við innleiðingu kerfisins.

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra segir einnig mikilvægt að fjölga leiguíbúðum og tryggja betur stöðu leigjenda m.a. þannig að húsnæði sem byggt er sem leiguhúsnæði verði ekki selt með tilheyrandi óöryggi fyrir leigjendur. Hann vill að hér starfi stór leigufélög sem bjóði til leigu húsnæði af ýmsum stærðum.

Lúðvík segist vonast eftir að þetta mál komi til skoðunar Alþingis í haust. Jafnframt þurfi að ræða við sveitarfélögin, en nefndin leggur til að ríkissjóður sjái alfarið um að fjármagna og greiða húsnæðisbætur. Þó greiði sveitarfélögin áfram sérstakar húsnæðisbætur til þess hóps sem lægstar tekjur hafa.

25% fjölskylda eru á leigumarkaði

Tillögur hópsins gera ekki ráð fyrir að eignir skerði greiðslu húsnæðisbóta. Lúðvík segir að skiptar skoðanir hafi verið um þetta innan hópsins og þetta sé eitt af því sem velferðarráðuneytið þurfi að skoða betur.

Um 25% af fjölskyldum búa í dag í leiguhúsnæði, en fyrir fáum árum var þetta hlutfall 20%. Flest bendir til að þetta hlutfall eigi enn eftir að hækka.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert