„Þegar það borgar sig ekki lengur að greiða í lífeyrissjóð verða skyldugreiðslur óskiljanlegar fólki. Svipað og vinna verður tilgangslaus fyrir þá sem heyra að bætur til þeirra sem eru utan vinnumarkaðar eru hærri en launagreiðslurnar,“ segir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, á Facebook-síðu sinni í dag.
Tilefnið eru ummæli Ásmundar Stefánssonar, fyrrverandi forseta Alþýðusambands Íslands, á fundi um lífeyrismál sem fram fór í dag þar sem hann sagðist ekki hafa haft hugmyndaflug til að láta sér detta það í hug að stjórnvöld myndu ganga eins langt í tekjutengingu ellilífeyris og þau hafa gert. Hann sagði það engu skipta í dag hvort verkakona á lágmarkslaunum hefði greitt í lífeyrissjóð eða ekki. Hún væri í sömu stöðu.
„Við þurfum að byggja hér hvetjandi samfélag. Þar sem fólk finnur stuðning frá stjórnvöldum þegar það leggur sig fram um að bæta líf sitt og annarra. Lög og reglur mega ekki ganga gegn heilbrigðri skynsemi fólks því ella dvínar öll virðing fyrir þeim og það grefur undan samfélagssáttmálanum,“ segir Bjarni.