Lífeyrisréttindi varin í stjórnarskrá

Þórey Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Landsamtaka lífeyrissjóða, segir engan vafa leika á að lífeyrisréttindi njóti eignarréttarverndar stjórnarskrárinnar. Þetta hafi verið staðfest í dómur hæstaréttar, úrskurðum umboðsmanns Alþingis og hjá mannréttindadómstól Evrópu.

Þórey sagði á fundi um lífeyrissmál í dag að framan síðustu öld hefði verið umdeilt hvort lífeyrisréttindi njóti eignarréttarverndar 72. greinar stjórnarskrárinnar. Um þetta væri ekki lengur deilt enda hefðu dómstólar dæmd mál þar sem tekist var á um þetta atriði á einn veg.

Stjórnvöld hafa þrýst á lífeyrissjóðina að gera samkomulag um að gefa eftir kröfur sem hluti af samkomulagi um vanda skuldugra heimila. Þórey segir að lífeyrissjóðunum sé ekki heimilt að gefa eftir innheimtanlegar kröfur.

Þórey sagði að nú vantaði um 652 milljarða inn í lífeyrissjóðakerfið til að sjóðirnir gætu staðið við skuldbindingarnar. Þar af vantaði 159 milljarða inn í almennu sjóðina. Vandinn væri stærstur hjá opinberu sjóðunum. Hún sagði að flestir sjóðirnir ættu ekki eignir fyrir öllum skuldbindingum sínum, en þó ætti það ekki við um alla sjóðina.

Þórey sagði að þrátt fyrir allt væri íslenska lífeyrissjóðakerfi sterkt í samanburði við kerfi annarra landa. Eignir íslensku lífeyrissjóðanna væri komnar yfir 2000 milljarða. Eignirnar væru um 130% af landsframleiðsla. Aðeins í Hollandi væri þetta hlutfall hærra.

Þórey sagði að gjaldeyrishöftin hefðu þrengt að fjárfestingamöguleikum lífeyrissjóðanna. Nú væru um 40% eignanna í ríkisbréfum og um 22% í erlendum eignum. Fyrir hrun hefðu um 30% eignanna verið í erlendum eignum. Hún benti á að rannsóknarnefnd, sem fjallaði um starfsemi lífeyrissjóðanna, hefði sagt óhjákvæmilegt að lífeyrissjóðirnir fjárfestu meira erlendis. Það dragi úr áhættu sjóðanna.

Þórey sagði að meðalávöxtun lífeyrissjóðanna á síðustu fimm árum hefði verið neikvæð um 3,72%, en ef miðað væri við síðustu 10 ár væri meðalávöxtun jákvæð um 2,09%. Markmið lífeyrissjóðanna er að sjóðirnir skili 3,5% jákvæðri raunávöxtun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert