„Evrópska innistæðutryggingakerfið gengur ekki upp fyrir Ísland, það sjá allir,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á Facebook-síðu sinni í kvöld. Hann bendir á að á Íslandi séu þrír bankar með 95% af öllum innistæðum.
Tryggingakerfið sé hins vegar upprunnið í Bandaríkjunum þar sem séu 7.500 bankar og sparisjóðir og fjórir stærstu þeirra séu með 25% af öllum innistæðum. Flestir séu þeir hins vegar tiltölulega litlir.
„Ég kynnti þessi mál fyrir þeim þingmönnum í Evrópuþinginu sem fara með þessi mál þegar ég heimsótti þingið síðasta haust. Þeir höfðu skilning á stöðu okkar Íslendinga og formaður nefndarinnar bauðst til að skoða hugmyndir frá okkur um lausn á okkar málum,“ segir Guðlaugur og bætir við að hann hafi einnig kynnt málin fyrir þáverandi ráðherra sem hafi sagst vera reiðubúinn að vinna í málinu en síðan hafi ekkert gerst.
„Af hverju veit ég ekki. Þetta er mjög stórt hagsmunamál fyrir okkur Íslendinga,“ segir Guðlaugur.