Íslendingur sem afplánaði refsingu í S-Ameríku lýsir í viðtali við Morgunblaðið hörmulegum aðstæðum í fangelsunum sem honum var haldið í. Ofbeldi var mikið, óþrifnaðurinn yfirþyrmandi og maturinn af mjög skornum skammti og afar ólystugur.
Í einu fangelsanna lak þvag og saur út í þröngan fangasalinn þar sem 25 mönnum var haldið. Maðurinn var síðan færður í annað fangelsi þar sem 80 fangar voru í sama fangasalnum. Einu sinni á dag var maturinn borinn inn, lítið box sem innihélt nautakjöt – en þó aðallega sinar og bein – og kjötið varð að sjóða í um þrjá tíma til að það yrði ætt. Maðurinn reiddi sig á matvæli úr fangelsisversluninni sem hann keypti fyrir fé sem hann fékk sent frá Íslandi.
Maðurinn slapp við árásir af hálfu samfanga en varð á hinn bóginn fyrir hrottalegri árás fangavarða eftir að hann hafði kvartað yfir vatnsleysi í fangasalnum. „Ég var dreginn inn á gang þar sem er engin eftirlitsmyndavél og þar voru högg og spörk látin dynja á mér,“ segir hann.