„Ríkisstjórnin situr uppi með það í dag að Hreyfingin hættir viðræðum um stuðning við hana og nýr meirihluti myndast gegn ESB-stefnu hennar í utanríkismálanefnd alþingis. Samt stendur stjórnarandstaðan ekki betur að áróðursmálum en svo að engu er líkara en allt loft hafi lekið úr henni,“ segir Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á heimasíðu sinni í kvöld.
Hann segir það óskiljanlegt að stjórnarandstaðan hafi samið um það við stjórnarmeirihlutann að ljúka umræðum um þingsályktunartillögu um þjóðaratkvæði um tillögu stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá.
„Þögn stjórnarandstöðunnar um efni þess samkomulags sem hún gerði undir forystu Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur er skiljanleg ef hún náði ekki meiri árangri með samningnum,“ segir Björn og vísar þar til frétta af því að stjórnarmeirihlutinn hafi fallist á að frumvarp til laga um náttúruvernd færi aftur til nefndar til umfjöllunar.