Alþingi taki málið til umfjöllunar

Evrópusambandið.
Evrópusambandið. mbl.is/Reuters

Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokks, fór fram á það á Alþingi í dag að utanríkisráðherra verði boðaður á fund utanríkismálanefndar og í kjölfarið muni Alþingi taka til umfjöllunar þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi aðildarviðræður við Evrópusambandið.

Ragnheiður vísaði til þeirra tíðinda sem gerðust á fundi utanríkismálanefndar í morgun, að nýr meirihluti myndaðist þegar Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, lýsti því yfir að hún vilji að þjóðin fái tækifæri til þess að greiða atkvæði um það, hvort hún vilji halda áfram aðildarferli og ganga í Evrópusambandið. Hún sagði að þetta væri einsdæmi.

Þá sagði Ragnheiður að mikilvægt væri og brýnt að taka málið til umfjöllunar hið fyrsta og kanna hvort meirihluti sé fyrir því á Alþingi að leyfa þjóðinni að kjósa um framhaldið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert