Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, sagði á Alþingi í dag að af viðræðum við ríkisstjórnina sem lauk í gærkvöldi hafi ekki annað komið í ljós en að Íslendingar muni áfram búa við óbreytt fyrirkomulag hvað viðkemur verðtryggingu. „Það er engin framtíðarsýn um framtíð verðtryggingar,“ sagði Þór.
Hann segir að viðræður hafi strandað þar sem ríkisstjórnin vilji ekki fara í almenna skuldarniðurfellingu og vilji ekki afnema verðtrygginguna. Um þetta vilji hann upplýsa því það skiptir þjóðina og þingið máli.
Þá beindi hann því til forseta Alþingis að stöðva málþóf um stjórnarskrármálið, en það sé hægt samkvæmt ákvæðum þingskapa.