Landssamband íslenskra útvegsmanna og Samtök atvinnulífsins vísuðu í dag kjaraviðræðum útvegsmanna og sjómanna til ríkissáttasemjara.
Samningar hafa verið lausir frá því í janúar 2011. Frá þeim tíma hafa aðilar tvisvar sinnum samið sérstaklega um hækkun á kauptryggingu og kaupliðum í samræmi við launahækkanir á almennum vinnumarkaði.
Frá því að síðustu kjarasamningar voru gerðir hafa ýmsir kostnaðarliðir og álögur á útgerðina hækkað umtalsvert sem kalla á breytingar á kjarasamningum aðila.
„Umtalsverð hækkun hefur orðið á veiðigjaldi, nýr skattur hefur verið lagður á olíu auk þess sem verð á olíu hefur hækkað verulega frá því að síðustu kjarasamningar voru gerðir,“ er haft eftir Friðriki Arngrímssyni, framkvæmdastjóra LÍÚ í fréttatilkynningu. Hann segir að þessir kostnaðarliðir hafi allir lagst á hlut útgerðarinnar en sem kunnugt er byggir launakerfi sjómanna á því að þeir fá hlut úr aflaverðmæti. „Þessar auknu álögur og kostnaðarhækkanir eru það miklar að ekki verður hjá því komist að taka tillit til þeirra við gerð nýrra kjarasamninga milli útvegsmanna og sjómanna,“ segir Friðrik.