Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra hefur í gær og í fyrradag tekið þátt í leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins í Chicago ásamt Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra.
Á fundi utanríkisráðherra bandalagsins lagði ráðherra áherslu á að bandalagið haldi dyrum sínum opnum fyrir þeim þjóðum sem vilja ganga til liðs við það. Hann tók sérstaklega undir með Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og William Hague, utanríkisráðherra Bretlands, um að vinna skyldi að því að á næsta leiðtogafundi árið 2014 yrði ríkjum bandalagsins fjölgað en þá verða 100 ár liðin frá upphafi heimsstyrjaldarinnar fyrri. Nú eru fjögur ríki í umsóknarferli, Svartfjallaland, Makedónía, Bosnía og Hersegóvína og Georgía. Sérstakur fundur utanríkisráðherranna var haldinn með utanríkisráðherrum þessara þjóða, samkvæmt fréttatilkynningu frá ráðuneytinu.
Utanríkisráðherra vísaði til góðrar samvinnu við samstarfsríki bandalagsins á Norðurlöndunum, Svíþjóð og Finnland, og rakti nokkra þætti Stoltenberg skýrslunnar um aukið samstarf Norðurlandanna á sviði öryggis- og varnarmála. Ráðherra talaði fyrir því að herða á samvinnu við ríki norður Afríku í Miðjarðarhafssamráðinu enda þurfi sá heimshluti á góðri samvinnu að halda við NATO-ríkin. Össur talaði fyrir því að þar yrði að gæta þess að ekki yrði brotið gegn mannréttindum og þá sérstaklega réttindum kvenna en merki eru um að kvenréttindi eigi undir högg að sækja eftir leysingar Arabavorsins.
Á fundinum var samþykkt að styrkja samstarf ríkjanna um varnarviðbúnað með áherslu á snjallvarnir. Einnig var afgreidd á fundi leiðtoganna ný varnar- og fælingastefna Atlantshafsbandalagsins sem er þáttur í nýrri grunnstefnu sem var samþykkt í Lissabon fyrir tveimur árum. Við mótun stefnunnar skipuðu Íslendingar sér framarlega í hóp þeirra þjóða sem lögðu mikla áherslu á afvopnun og heim án kjarnorkuvopna.