„Ég vil gagnrýna það harðlega að formaður nefndarinnar skuli ekki vera hér eða einhver fulltrúi úr efnahags- og viðskiptanefnd háttvirtri sem getur verið hér og tekið þátt í þessari umræðu og svarað þeim spurningum sem hérna koma fram.“
Þetta sagði Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, á Alþingi í kvöld í umræðum um frumvarp ríkisstjórnarinnar um frávik meðal annars frá skattalögum vegna svonefndra IPA-styrkja í tengslum við umsóknina um aðild að Evrópusambandinu.
„Mér finnst það algjör vanvirðing við Alþingi að hér stöndum við stjórnarandstæðingar heilu dagana og fram á kvöld og fram á nætur og ræðum við tóman sal og við hvort annað. Hvers konar hegðun er þetta og hvers konar framganga er þetta gagnvart Alþingi,“ sagði Ragnheiður ennfremur.
Hún óskaði því næst eftir því að verða sett aftur á mælendaskrá og fór fram á það að gerðar væru ráðstafanir til þess að fulltrúar úr efnahags- og viðskiptanefnd yrðu í salnum þegar kæmi að henni aftur. „Réttast væri, frú forseti, að þessari umræðu væri frestað þar til bætt hefur verið úr.“