Íslendingar tístu um Evróvisjón

Reuters

Hressilegar umræður sköpuðust um söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva á vefsíðunni Twitter.com í kvöld. Bæði í Evrópu allri en íslenskir notendur vefsíðunnar hafa líklega aldrei verið jafn virkir í umræðunum um Evróvisjón, en 1500 íslensk tíst birtust á þremur klst í kringum útsendinguna sem merkt voru #12stig.

Á bak við skrifin voru á þriðja hundrað Twitter-notendur og þau náðu til tæplega 45.000 notenda.

Í fréttatilkynningu segir að Vodafone hafi kynnt til leiks merkið #12stig í auglýsingum sínum fyrir Evróvisjónkeppnina að þessu sinni, í þeim tilgangi að sjá hvort Íslendingar myndu nota það til að finna hvor annan á Twitter um leið og þeir horfðu á keppnina í sjónvarpinu.

Með því að leita eftir #12stig geta Twitter notendur séð öll tíst þar sem umræðuefnið er söngvakeppnin. 

Samfélagsmiðillinn Twitter er ekki jafn útbreiddur og Facebook, en hann þykir hins vegar henta mjög vel þegar fólk vill tjá sig mörgum sinnum í röð um sama umræðuefnið, svo sem eins og um fótboltaleiki sem það er að horfa á eða viðburði eins og söngvakeppnina.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert