„Svo virðist sem stjórnvöld hafi í raun ekki getu til þess að taka á skuldavandanum. Við fundum ekki fyrir viljaleysi í þeim efnum en við fundum fyrir því úrræðaleysi sem ríkisstjórnin stendur frammi fyrir. Því strandaði þetta þar án þess að við færum eitthvað lengra með þessar viðræður.“
Þetta segir Margrét Tryggvadóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, í Morgunblaðinu í dag. Ekkert verður úr því að Hreyfingin muni formlega styðja við ríkisstjórnina. Viðræður þess efnis hafa staðið undanfarna daga. Upp úr viðræðum slitnaði í gær samkvæmt upplýsingum hennar. „Þetta er útrætt mál af hálfu Hreyfingarinnar. Við gerðum þeim tilboð um stuðning. Ríkisstjórnin gekk ekki að þessu tilboði og því fór sem fór,“ segir Margrét.
Steingrímur J. Sigfússon segir það ekki sína upplifun að slitnað hafi upp úr viðræðum. „Það kom engin niðurstaða í okkar mál. Ég upplifði það ekki að viðræður hefðu slitnað. Þau verða að tala fyrir sig,“ segir hann.