Lögreglumenn kærðir vegna brots á þagnarskyldu

mbl.is

Tveir lögreglumenn, fyrrverandi starfsmenn embættis sérstaks saksóknara, hafa verið kærðir til ríkissaksóknara vegna brots á þagnarskyldu. Mennirnir, sem létu af störfum um síðustu áramót, eru kærðir fyrir að hafa látið þriðja aðila í té upplýsingar úr rannsókn máls sem þeir unnu að á sama tíma og þeir störfuðu fyrir sérstakan saksóknara.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem sérstakur saksóknari hefur sent fjölmiðlum.

„Mennirnir komu til embættisins sem lánsmenn frá lögreglustjóranum á  höfuðborgarsvæðinu árið 2009 og unnu að rannsókn tiltekins máls þar til þeir hófu störf sem sjálfstæðir rannsakendur um síðustu áramót. Grunsemdir um brot mannanna tveggja vöknuðu eftir að þeir höfðu látið af störfum hjá sérstökum saksóknara. Skoðun embættisins leiddi síðan til kæru til embættis ríkissaksóknara sem fer nú með rannsókn málsins í samræmi við lögreglulög.

Þótt brotið sem tvímenningarnir eru kærðir fyrir sé litið alvarlegum augum hefur það ekki víðtæk áhrif á starfsemi embættisins þar sem þeir unnu að rannsókn á grundvelli tiltekinnar kæru. Þeim verjendum sem hlut eiga að máli hefur verið tilkynnt um grun um meint brot fyrrverandi lögreglumanna við embættið og um rannsókn ríkissaksóknara.

Vegna rannsóknarhagsmuna mun sérstakur saksóknari ekki tjá sig frekar um málið að svo stöddu,“ segir í yfirlýsingunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert