Lilja Mósesdóttir alþingismaður segist óttast að fáir muni taka þátt í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu sem einungis snúist um tillögur stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá. Hins vegar sé tímabært að venjast þeirri hugsun að fram fari þjóðaratkvæðagreiðslur um ýmis mál. Þetta kemur fram á Facebook-síðu hennar í kvöld.
„Ég treysti þjóðinni til að greiða atkvæði um bæði tillögur stjórnlagaráðs og hvort draga eigi ESB-umsóknina til baka. Óttast að fáir muni taka þátt í ráðgefandi þjóðarakvæðagreiðslu sem bara snýst um tillögur stjórnlagaráðs. Tímabært að venjast hugsuninni um þjóðaratkvæðagreiðslum um ýmis mál!“ segir Lilja.
Kosið verður á morgun um það á Alþingi hvort fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla í október um tillögur stjórnlagaráðs og einnig hvort samhliða þeirri kosningu verði kosið um það hvort draga eigi umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu til baka.