„Þið óskuðu í bréfinu eftir fjárstuðningi, 5.000 kr. Ég hef hugsað mér að bruðla ekki með þennan 5.000 kall heldur nota hann skynsamlega. Ég mun nota hann í annað,“ segir Sigurður Á. Þorleifsson í bréfi til Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi á vefritinu Pressunni í dag en honum barst nýverið ósk frá flokknum um fjárstuðning.
„Mér þykir ansi skondið að þið skulið leita til mín í ykkar vandræðum. Ég verð nú í dag 65 ára gamall. Þeir sjóðir sem ég þó átti eru nú upp étnir. Eignarhlutinn í húseign minni farinn, búinn að vera atvinnulaus síðan í árslok 2008, þannig að ég ég sé mér nú ekki fært að styrkja ykkur með beinhörðum peningum. Þó á ég nokkrar dósir í poka sem ég ætla í annað,“ skrifar Sigurður.
Þá ráðleggur hann Samfylkingunni með sama hætti og fólki í skuldavanda hafi verið ráðlagt. Draga úr kostnaði, leita til umboðsmanns skuldara og bíða í mörg ár eftir niðurstöðum dómstóla ef flokkurinn sé með erlend lán. „Þessi ráð munu örugglega koma ykkur vel. Sum af þessum ráðum mínum eru þau ráð sem þið af ykkar gæsku og velvild hafið gefið okkur og segið að muni duga og fleira verði ekki gert.“
Sigurður segir að Samfylkingin í Suðurkjördæmi hafi sagst þurfa fjárstuðning til þess að ná vopnum sínum og til þess að borga gamlar skuldbindingar. Flokkurinn hafi þó engin vopn og hafi ekkert upp á að bjóða að hans mati. „Hvar hafið þið öskrað ykkur hás vegna ástandsins hér á Suðurnesjum, þið og aðrir þingmenn Suðurkjördæmis,“ skrifar hann og vísar meðal annars til þess að hundruð fasteigna á svæðinu séu í eigu Íbúðalánasjóðs eða bankanna.
Bréf Sigurðar Á. Þorleifssonar