Stækkunarstjóri ESB heimsækir Ísland

Stefan Füle, stækkunarstjóri Evrópusambandsins.
Stefan Füle, stækkunarstjóri Evrópusambandsins. Reuters

Štefan Füle, framkvæmdastjóri stækkunar- og nágrannastefnu Evrópusambandsins, verður í heimsókn á Íslandi á fimmtudag og föstudag til að ræða um starfið sem framundan er í aðildarviðræðunum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá framkvæmdastjórn ESB.

Þar segir, að hinar eiginlegu samningaviðræður hafi borið stöðugan árangur frá því þær hófust fyrir tæpu ári síðan. Fimmtán samningskaflar hafi verið opnaðir, tíu hafi þegar verið lokað til bráðabirgða og undirbúningur sé hafinn að því að fást við næstu kafla.   

„Samningaviðræður Íslands og ESB ganga vel og við búumst við því að opna fleiri samningskafla á næstu ríkjaráðstefnu, þann 22. júní. Frammistaðan hingað til boðar gott, nú þegar viðkvæmari málaflokkar eru framundan. Ég vonast eftir enn frekari árangri í fleiri köflum fyrir árslok,“ er haft eftir Füle í tilkynningunni.  

Þá kemur fram, að í heimsókninni ætli Füle að ræða nýstigin skref í aðildarviðræðunum við utanríkisráðherra, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra og utanríkismálanefnd Alþingis. Einnig muni hann hitta forstöðumenn helstu sveitarfélaga sem og fulltrúa Samráðshóps í tengslum við aðildarviðræðurnar og vonandi gefst tími til að hitta einhverja fulltrúa stjórnarandstöðunnar.   

„Ég kem nú í aðra heimsókn mína til Íslands til að minna á að við störfum að einstöku ferli, sem snýst um að finna Íslandi stað innan sameinaðrar og sístækkandi Evrópu. Við erum skuldbundin til að starfa með félögum okkar á Íslandi og viljum nú einblína á málaflokka sem eru afar þýðingarmiklir hvað framhald viðræðnanna varðar. Með jákvæðni að vopni beggja megin borðsins má viðhalda hraða viðræðnanna og ná árangursríkri niðurstöðu,“ er ennfremur haft eftir Füle.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert