Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, segir með ólíkindum að ríkisstjórnarflokkarnir, Samfylkingin og Vinstrihreyfingin - grænt framboð, vilji ekki að fram fari rannsókn á einkavæðingu þeirra á bönkunum í kjölfar bankahrunsins. Þetta kemur fram á Facebook-síðu Gunnars í kvöld.
Ríkisstjórnin hefur langt fram þingsályktunartillögu á Alþingi um að fram fari rannsókn á einkavæðingu bankanna í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins en stjórnarandstæðingar hafa lagt til að um leið verði rannsakað hvernig staðið hefði verið að einkavæðingu bankanna á ný eftir að ríkið tók þá yfir í bankahruninu.
„Það er með ólíkindum að ríkisstjórnarflokkar sem þykjast vera með allt uppi á borðum vilja ekki rannsaka þeirra einkavæðingu á bönkunum. Erlendir vogunarsjóðir fengu bankana í boði Samfylkingar og VG og í kaupbæti þá fjármuni sem heimilin áttu að fá til leiðréttingar lána! Rannsökum allar einkavæðingar banka fyrr og nú. Annað kemur ekki til greina,“ segir Gunnar.