„Ég styð heilshugar breytingartillögu Vigdísar Hauksdóttur um að hætta beri viðræðum,“ segir Jón Bjarnason, þingmaður VG, aðspurður um þá tillögu eins þingmanna Framsóknar að þjóðin verði spurð hvort hætta eigi viðræðum við ESB, samhliða þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs í haust.
Fjallað er um málið í Morgunblaðinu á morgun og er þar rætt við nokkra þingmenn um afstöðu þeirra til tillögu Vigdísar.
„Mín skoðun er sú að það eigi að afturkalla umsóknina. Það er ljóst að við höfum ekkert í Evrópusambandið að gera. Ég var þeirrar skoðunar að það ætti ekki að fara út í þessa vegferð nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.
Ég styð því heilshugar breytingartillögu Vigdísar Hauksdóttur um að hætta beri viðræðum, enda er það klár stefna míns flokks og kosningaloforð að ekki yrði sótt um aðild að Evrópusambandinu,“ segir Jón.
Vinstrihreyfingin - grænt framboð á nú 12 þingmenn á Alþingi. Flokkurinn fékk 14 menn kjörna í kosningunum 2009 en síðan gengu Atli Gíslason, Ásmundur Einar Daðason og Lilja Mósesdóttir úr skaftinu. Voru þá 11 þingmenn eftir. Á móti gekk Þráinn Bertelsson í VG úr Hreyfingunni og er nú tólfti maður VG á þingi.
Tveir fylgjandi, einn á móti
Líkt og Jón lýsir Guðfríður Lilja Grétarsdóttir sig fylgjandi tillögunni í Morgunblaðinu í dag, miðvikudag. Ögmundur Jónasson er hins vegar andvígur tillögunni. Svandís Svavarsdóttir hefur nýlega lýst sig fylgjandi þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarumsóknina að ESB en ekki náðist í hana símleiðis í gærkvöldi. Er vikið að ummælum hennar um þjóðaratkvæði í niðurlagi þessarar fréttar.
Átta þingmenn VG eru þá eftir; Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, Árni Þór Sigurðsson, Álfheiður Ingadóttir, Björn Valur Gíslason, Katrín Jakobsdóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Þráinn Bertelsson og Þuríður Backmann.
Sögðust þeir Árni Þór og Björn Valur ekki hafa trú á því að tillaga Vigdísar verði samþykkt en sá fyrrnefndi er formaður utanríkismálanefndar og sá síðarnefndi formaður þingflokksins.
Guðmundur: Haldi markaðri stefnu
Ásmundur Einar Daðason fór yfir í Framsókn á kjörtímabilinu en Guðmundur Steingrímsson er nú utan flokka eftir að hafa boðið fram með Framsókn í apríl 2009.
Guðmundur er andvígur tillögu Vigdísar.
„Ég er andvígur tillögunni. Ég er eindreginn fylgismaður þess að þjóðin kjósi þegar aðildarsamningur og allar upplýsingar um hann liggja fyrir, að þá fari fram þjóðaratkvæðagreiðsla eins og ákveðið hefur verið. Það hefur alltaf verið talað um að þjóðin hafi síðasta orðið í þessu og það styð ég,“ segir Guðmundur.
Kosið verði fyrir kosningar
Sem fyrr segir hefur Svandís lýst því yfir að hún vilji að þjóðin verði spurð um aðildarferlið.
Orðrétt sagði hún samkvæmt bráðabirgðaútgáfu á vef Alþingis af andsvari hennar á þingi síðasta föstudag:
„Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Menn hafa látið að því liggja að þeir þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem greiddu atkvæði með aðildarumsókn gerðu það gegn sínum vilja eða gegn vilja flokksins. Svo er ekki. Sú sem hér stendur greiddi atkvæði með aðildarumsókn þar sem ég taldi tímabært að þjóðin gæti tekið afstöðu til þessarar mikilvægu spurningar og að sú spurning ætti erindi til þjóðarinnar en væri ekki til lykta leidd hér í þingsal.
Þess vegna greiddi ég atkvæði með tillögunni en var þá afar sannfærð um að Íslandi væri betur borgið utan Evrópusambandsins en innan þess. Sú skoðun mín hefur styrkst ef eitthvað er og ég held að það þurfi ekki mikla stjórnmálaspeki til að sjá að staða Evrópu er mjög flókin og vandasöm og er vandséð að það sé skynsamlegt fyrir Ísland að nálgast Evrópusambandið með aðild núna.
Hins vegar verður það sífellt meira krefjandi viðfangsefni stjórnmálanna að koma því þannig fyrir að þjóðin geti tekið afstöðu til efnislegra þátta og ég tel að slík atkvæðagreiðsla þurfi að eiga sér stað eigi síðar en við næstu þingkosningar, þ.e. að þjóðin geti tekið afstöðu til þeirra efnislegu þátta sem þá liggja fyrir í samskiptum Íslands og Evrópusambandsins því að það er ótækt að draga það ferli meira á langinn en svo og þjóðin þarf þá að koma að því máli. Því miður er ekki endilega útlit fyrir að við verðum með samning í höndunum en þjóðin þarf sannarlega að geta tekið afstöðu til aðildar að Evrópusambandinu á þessu kjörtímabili . Ég held að það sé mikilvægt fyrir framtíðina.“