Áhrif úrskurða um jafnréttismál undir

Anna Kristín Ólafsdóttir, Þórunn Guðmundsdóttir og Einar Karl Hallvarðsson.
Anna Kristín Ólafsdóttir, Þórunn Guðmundsdóttir og Einar Karl Hallvarðsson. Morgunblaðið/Golli

Tekist var á um bótakröfu upp á rúmar sextán milljónir fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í dag en krafan er sett fram vegna brots forsætisráðuneytis á jafnréttislögum. Eitt helsta ágreiningsefni í málinu er hvort úrskurðir kærunefndar jafnréttismála séu bindandi, eins og kveðið er á um í lögum 20/2008, um jafna stöðu kvenna og karla.

Forsaga málsins er að Anna Kristín Ólafsdóttir stjórnsýslufræðingur sótti um starf skrifstofustjóra skrifstofu stjórnsýslu- og samfélagsþróunar í forsætisráðuneytinu á árinu 2010. Alls sóttu 41 einstaklingur um starfið og var 21 umsækjandi tekinn í starfsviðtal. Fimm þeirra voru boðaðir í síðara viðtal, þar á meðal Anna Kristín.

Þann 1. júní 2010 skipaði Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, Arnar Þór Másson í starfið til fimm ára. Anna Kristín sætti sig ekki við þessa niðurstöðu, fór fram á rökstuðning og síðan eftir öllum gögnum málsins. Þá kærði hún niðurstöðuna til kærunefndar jafnréttismála og lá niðurstaða hennar fyrir 22. mars 2011.

Sættist ekki á 500 þúsund í bætur

Kærunefnd jafnréttismála úrskurðaði að ráða hefði átt Önnu þar sem hún hefði verið jafnhæf hið minnsta og að ekki hefði verið sýnt fram á að aðrar ástæður en kynferði hefði ráðið því að Arnar var ráðinn. Með því að ráða hann hefði forsætisráðuneytið brotið lög um jafna stöðu kvenna og karla.

Önnu Kristínu voru boðnar miskabætur, sem að hámarki gátu orðið 500 þúsund krónur, en engar skaðabætur vegna málsins. Hún sættist ekki á það en lagði fram sáttatilboð upp á fimm milljónir króna, þ.e. skaða- og miskabætur. Því var hafnað og því höfðaði hún skaðabótamál.

Þórunn Guðmundsdóttir, lögmaður Önnu, vísaði til þess að sú breyting hafi komið inn í lögin árið 2008 að úrskurðir kærunefndar jafnréttismála séu bindandi. „Það er kjarni málsins og enn eru ekki komin dómafordæmi frá Hæstarétti um þá breytingu.“

Óvirðing ef eftirfylgni er virt að vettugi

Meðal þess sem Þórunn kom inn á, var að fyrir árið 2008 hafi kærunefnd jafnréttismála aðeins gefið út álit. Hún vitnaði í greinargerð með frumvarpinu sem samþykkt var 2008 en þar segir að með þeirri tilhögun að úrskurðir séu bindandi fyrir málsaðila hafi verið að leitast við að veita niðurstöðum nefndarinnar meira vægi.

Þá minnti Þórunn á, að sá ráðherra sem mælti fyrir lögunum 2008 sé sá sami og braut þau svo 2010, Jóhanna Sigurðardóttir. „Og það er athyglisvert að lesa framsöguræðu hennar þegar hún mælti fyrir þessum lögum, sérstaklega í ljósi þess hvernig hún brást við úrskurði kærunefndar í þessu máli.“

Vitnaði Þórunn í ræðuna, sem flutt var 1. nóvember 2007. Þar sagði Jóhanna meðal annars: „Jafnréttismál eru mannréttindamál en þeim er sýnd fullkomin óvirðing ef eftirfylgni með þeim er virt að vettugi eða sett margfalt neðar í forgangsröðina um virkt eftirlit en t.d. samkeppnis- eða fjármálalöggjöfin. [...] Eitt af lykilatriðunum í þeim nýmælum sem finna má í frumvarpinu er að úrskurðir kærunefndar jafnréttismála verði gerðir bindandi fyrir málsaðila í stað álita áður. Með því er niðurstöðum nefndarinnar gefið meira vægi og aukast þá líkur á að farið sé eftir þeim.

Þórunn rakti þá viðbrögð Jóhönnu við úrskurði kærunefndar í málinu. „Í stað þess að sýna auðmýkt byrjaði hún á því að senda út fréttatilkynningu sem fylgdi greinargerð þar sem gagnrýnd er harðlega niðurstaða kærunefndarinnar og reynt að sýna fram á að hún hafi haft óskaplega mikið á röngu að standa. Jóhanna bætti svo um betur og skipaði rýnihóp til að fara yfir úrskurðinn, sem var bindandi.“

Bótakröfuna rökstuddi Þórunn með útreikningum og annars vegar um að ræða fjártjónskröfu, þ.e. þá upphæð sem Anna Kristín hefði haft í höndum eftir að fimm ára skipunartíma lyki, auk hálfrar milljónar króna í miskabætur. Hún sagði miskabótakröfuna hófstilla. Það hafi verið niðurlæging að karlmaður, sem jafnvel var minna hæfur, hafi fengið starfið en svo voru það viðbrögð ráðuneytisins, að koma málinu strax í fjölmiðla með fréttatilkynningu. Svo átti ekki að virða úrskurðinn og boðnar hafi verið smánarlegar bætur. „Forsætisráðherra taldi að það kostaði í mesta lagi fimm hundruð þúsund krónur að brjóta jafnréttislög.“

Faglegt og hugað að jafnréttislögum

Einar Karl Hallvarðsson, ríkislögmaður, krafðist þess að íslenska ríkið verði sýknað af kröfum Önnu Kristínar í málinu. Hann ekkert benda til þess að jafnréttislög hefðu verið brotin heldur hefði umsóknarferlið verið afskaplega faglegt og sérstaklega hafi verið hugað að jafnréttislögum. Þá minnti hann á, að forsætisráðherra sé einn helsti kyndilberi jafnréttisbaráttunnar í þingsölum og Jóhönnu hefði verði mjög brugðið yfir úrskurðinum.

Þá sagði hann að viðbrögð ráðherrans og ráðuneytis sýndi að Jóhanna hafi sýnt fullkomna auðmýkt, og það hafi verið að frumkvæði hennar að boðnar voru fram bætur í stað þess að fara í dómsmál. Reynt hafi verið að sætta málið. „Hún tók þann kost frekar að bjóða bætur, en hún hafði sannfæringu fyrir því að kynferði hefði ekki ráðið för við skipun í stöðuna.“ Það hefðu verið málefnaleg og rétt viðbrögð að reyna fá sátt í málið.

Meðal þess sem Einar Karl benti á, var að í umsóknarferlinu hafi sérstaklega verið hugað að jafnréttismálum og það komið skýrt fram, bæði hjá ráðuneytisstjóra og ráðgjafa sem sáu um ráðninguna, og eru konur. Þá hafi þegar komist var að niðurstöðu sá hæfasti, Arnar Þór, verið borin sérstaklega saman við þann umsækjanda sem var í öðru sæti, og er kona, og Önnu. Niðurstaðan hafi verið sú að Arnar Þór var hæfasti umsækjandinn í starfið.

Ýmislegt rangt hjá kærunefndinni

Einnig benti Einar Karl á að í úrskurði kærunefndar jafnréttismála sé farið rangt með ýmis atriði, meðal annars menntun Arnars Þórs. Hún hafi því verið afar lítils metin af nefndinni. „Ég á ekki orð yfir því hversu rangt þetta mat er hjá kærunefndinni,“ sagði Einar og spurði hvort dómurinn gæti byggt á röngum úrskurði. „Dómstóllinn getur ekki leyft sér að byggja á röngum efnisþáttum í úrskurði, sem þó segir í lögum að sé bindandi.“

Auk þess velti Einar því upp hvaða áhrif það eigi að hafa, að úrskurðurinn sé bindandi. Hann hafi sjálfur spurt nefndina að því en ekki fengið nein svör. Hún hafi því ekki áttað sig sjálf á því hvaða áhrif úrskurðurinn hafi átt að hafa, eða um hvað hann sé bindandi. „Eru einhver efnisatriði í úrskurðinum sem binda hendur dómstóla?“

Að sama skapi sagðist hann ekki sjá eftir hvaða afgreiðslu Anna beið eftir að úrskurðurinn var kunngerður. „Átti að greiða umorðalaust fjártjónsbætur, biðjast afsökunar? Um hvað fjallaði kærunefndin. Hún sagði ekki að [Anna] hefði verið hæfust, það er lykilatriði.“

Í þessu sambandi, að ekki hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að Anna væri hæfust, benti Einar Karl á, að Anna hefði verið metin númer fimm af fimm umsækjendum. Efstur hefði verið Arnar Þór og þar á eftir komu þrjár konur. Þá hafi ráðuneytisstjórinn upplýst um það, að valið hefði staðið á milli Arnars og þeirrar konu sem var í öðru sæti, og þar hafi verið um erfitt val að ræða. Gerður hafi verið samanburður á Arnari og umræddri konu - eins og á Önnu einnig - til þess að gæta að jafnréttislögum.

Að endingu sagði Einar Karl, að ekki hafi verið reynt að sína fram á að Anna hafi verið hæfari en aðrir umsækjendur eða að hún hefði átt að fá umrætt starf. Hins vegar liggi það fyrir í gögnum málsins að Arnar Þór hafi verið hæfari í öllum þáttum. Því eigi að hafna fjártjónskröfu Önnu. Þá sé ekki raunhæft að dæma miskabætur þar sem engin niðurlæging hafi verið í málinu, og ekki nein gögn um að íslenska ríkið hafi valdið Önnu miska.

Ráðherra óskaði eftir samanburði

Í athugasemdum eftir málflutning ríkislögmann sagði Þórunn, að komið hefði fram hjá ráðgjafanum við ráðninguna að það hefði verði ráðherrann sjálfur sem óskaði eftir því að Arnar Þór yrði borinn saman við Önnu. „Að mati ráðherra stóð valið því á milli þeirra tveggja. Það skiptir hér máli.“ Þá hafi aðeins verið rætt við meðmælendur þeirra tveggja, ekki hinna þriggja.

Þá áréttaði hún að um skaðabótamál sé að ræða vegna þess að Anna var að minnsta kosti jafnhæf ef ekki hæfari en Arnar, valið hafi staðið á milli þeirra tveggja og miklu færri skrifstofustjórar í ráðuneytinu séu konur en karlar. Hún hafi því átt að fá starfið en fékk ekki. Þá séu útreikningarnir miðaðir út frá því hvernig hún stæði fjárhagslega ef hún hefði fengið starfið.

Í athugasemdum Einars Karl kom fram að hann teldi sig hafa sýnt fram á að málefnalegar og lögmæltar ástæður hafi verið fyrir skipun Arnars Þórs í starfið. Engin teikn séu um að kynferði hafi ráðið ferðinni.

Stjórnarráðshúsið, þar sem forsætisráðuneytið er til húsa.
Stjórnarráðshúsið, þar sem forsætisráðuneytið er til húsa. mbl.is/Hjörtur
Jóhanna Sigurðardóttir.
Jóhanna Sigurðardóttir. Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka