Uppsagnir hjá bönkum bitna einkum á konum

mbl.is/Hjörtur

„Þetta var svo sem viðbúið enda hafa þeir verið að lýsa því yfir held ég allir stóru bankarnir að þegar kúfurinn færi af þessum skuldamálum einstaklinga og fyrirtækja þá kæmi eflaust til þess að einhverjir myndu missa vinnuna,“ segir Friðbert Traustason, formaður Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja. Hann bætir við að þegar svona gerist sé það hins vegar auðvitað alltaf mjög erfitt og slæmt.

Eins og mbl.is greindi frá fyrr í dag hefur Landsbankinn ákveðið að hagræða í rekstri bankans með aðgerðum sem meðal annars fela í sér sameinungu og lokun útibúa og uppsögn starfsmanna í tengslum við þær. Gert er ráð fyrir að starfsmönnum Landsbankans fækki um 50 við aðgerðirnar en þar af hefur 29 verið sagt upp störfum og 15 verið boðinn starfslokasamningur vegna aldurs.

„Það er búið að kynna þetta fyrir okkur, eins og þeir hafa yfirleitt alltaf gert þegar svona lagað hefur staðið til, og að þetta væri á döfinni,“ segir Friðbert. Hann segir aðspurður ljóst að meirihluti starfsmanna í útibúum bankanna séu konur og ekki síst í útibúaneti þeirra og því sé ljóst að uppsagnir sem þessar muni koma niður á þeim.

Spurður að því hvaða aðgerðir séu í gangi við að aðstoða þá sem misst hafa vinnuna að finna nýja vinnu segir Friðbert að sú vinna sé í fullum gangi, bæði á vegum bankans og eins stéttarfélagsins sem sé meðal annars með samninga í þeim efnum við ráðningarfyrirtæki.

„Sem betur fer hefur félagsmönnum hjá okkur gengið miðað við atvinnuástandið ótrúlega vel að fá vinnu annars staðar. Það hafa verið hátt í tvö þúsund uppsagnir frá því haustið 2008 í þessum geira. En það eru núna 90 félagsmenn á atvinnuleysisskrá. Það er alveg ótrúlega góður árangur,“ segir Friðbert.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert